138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt athyglisvert að þingið var að fjalla um ýmislegt tengt bönkunum 2005. Hefði þá ekki verið meiri ástæða til að ætla að þingið fjallaði meira um bankana þegar bankarnir voru komnir í miklu verri mál 2008? Af hverju gerðist það ekki? Er það ekki spurning sem væri nær að við spyrðum okkur og sérstaklega við sem vorum á þingi sem varamenn eða aðalmenn á þessum tíma og aðrir líka? Við verðum að hugleiða það.

Síðan er auðvitað þetta, og ég tek undir það með hv. þingmanni, að það er mjög mikilvægt að reyna að setja sig í sporin sem þetta fólk var í á þessum tíma. Og án þess að ég ætli að bera blak af því sem var gert — eins og ég hef margoft sagt finnst mér það ámælisvert sem var gert, enda endaði það með ósköpum, sú hugmyndafræði aðgerðaleysis t.d. og allt það er dæmi um slæma pólitík eins og ég rakti, — þá finnst mér líka mikilvægt að maður reyni að setja sig í þessi spor: Hver var t.d. váin? Var það áfall á fjármálamarkaði eða var það mögulegt hrun bankanna á einni viku? Ég held að enginn hafi haft, eða a.m.k. mjög fáir, hugmyndaflug í það að hrun bankanna yrði á einni viku.

Greiningardeildir bankanna gáfu út einhverja spá að mig minnir í september 2008 þar sem bankarnir spáðu stöðnun. Ég held að það nái ekki alveg utan um það sem gerðist mánuði síðar. Ég held að við getum ekki lýst hruni allra stóru viðskiptabankanna á Íslandi sem stöðnun beinlínis. Auðvitað voru hér líka mjög misvísandi upplýsingar án þess að ég ætli að bera blak af stjórnvaldsaðgerðum.