138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði til að spyrja hv. þm. Mörð Árnason spurninga sem ég hef spurt fleiri þingmenn sem vilja ákæra. Hvað hefði hv. þingmaður gert verandi ráðherra á þessum tíma sem hefði getað afstýrt því sem hann ásakar þessa ráðherra um að hafa ekki gert?

Í öðru lagi: Hefur hv. þingmaður lesið málsvörn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, frá 24. september 2010 og getur hann sagt mér hvernig utanríkisráðherra hefði getað haft áhrif á efnahagslega stöðu Íslands bara stöðu sinnar vegna?

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Getur verið að það eigi að ákæra hana fyrir það sem hún gat ekki haft áhrif á? Hún var heldur ekki forsætisráðherra þannig að það er ekki hægt að ákæra hana fyrir að hafa stýrt skipinu. Svo kom ekki nægilega skýrt fram hjá hv. þingmanni hvort hann vill ákæra hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra. Ég gat alla vega ekki lesið það. Svo sagði hann og það er dálítið merkilegt: Sjálfstæðisflokknum var afhent efnahagsstefnan fyrir utan eitt ráðuneyti, viðskiptaráðuneytið sem var búið til og settur, ég man ekki hvernig hann orðaði það, nýgræðingur í. Hvernig í ósköpunum gat þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borið ábyrgð á efnahagsstefnunni?