138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða var einmitt eins og menn hafa gagnrýnt ákærurnar, hún var loðin. Það átti að búa til einhverja nefnd, koma með heildstæða lausn — og hvað svo? Nefndin væri sennilega enn þá að störfum ef hún hefði verið sett á laggirnar í maí til að finna lausn á vandanum. Hún hefði verið að starfa fram að jólum og þá var allt löngu hrunið. Það eina sem hægt var að taka á þarna var að hann hefði komið í veg fyrir myndun Icesave í Hollandi. Það vill nú svo til að það var stofnun Icesave sem menn ráðlögðu um allan heim að gera. Matsfyrirtækin verðlaunuðu Landsbankann fyrir að vera með Icesave. Hann fékk hærra mat fyrir bragðið. Svona var staðan fyrir hrun af því að menn vissu ekki að hrunið kæmi. Svo sagði hv. þingmaður að hann hefði tryggt það að Icesave í Bretlandi hefði verið flutt yfir í einkabanka. Það var einmitt það sem menn reyndu og reyndu og breska fjármálaeftirlitið stóð þversum. Af hverju? Þeir vildu fá andvirði allra innlána með sem var ekki hægt. Um þetta stóð deilan. Þetta stendur í skýrslunum öllum. Þetta var ekki svona einfalt. Maður fjarstýrir ekki breska fjármálaeftirlitinu eða bresku ríkisstjórninni, hvað þá þeirri hollensku. Það vill svo til að Landsbankinn gat stofnað Icesave-reikninga í Hollandi með því einu að tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins með bréfi, það þurfti að tilkynna það með bréfi að þeir ætluðu að taka upp þessa afurð og ef FME hefði ætlað að neita því var það eina sem þeir gátu gert að loka Landsbankanum. Það var það eina sem þeir gátu gert og þá værum við núna að ræða skaðabætur vegna þess.