138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er enginn að halda því fram að verkefni ríkisstjórnarinnar á árinu 2008 hafi verið einföld og það er auðvitað alveg fráleitt að ræða þetta þannig í ræðustól að menn séu að spyrja hver annan: Hvað hefðir þú gert á þessum tíma? Hvernig hefðir þú farið að? Ég veit ekkert hvað ég hefði gert á þessum tíma en ég hefði reynt að standa mig í því hlutverki sem ég tók að mér og ég held að með þá samstarfsmenn sem ég hefði reynt að velja mér hefði ég getað komist á snoðir um hvað var að gerast í bönkunum. Ég hefði líka, t.d. ef ég hefði verið Geir H. Haarde, tekið mark á því sem forsætisráðherra Breta sagði við mig í apríl þetta ár. Ég hefði tekið mark á yfirlýsingunni sem ég skrifaði undir sjálfur við norrænu Seðlabankana. Ég hefði tekið vara við því að þenja bankakerfið enn þá meira út með innlánunum í Bretlandi og Hollandi.

Ég las þetta upp fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal vegna þess að hann hefur verið að kalla eftir einstökum aðgerðum. Það er ekki það sem við eigum að horfa á, einstakar aðgerðir. Mér ber engin skylda til að segja að tiltekinn dag hefði tiltekinn maður átt að gera þetta. Ég lít á heildarstörf þessara manna, bæði það sem þeir gerðu og það sem þeir gerðu ekki, og mín niðurstaða er sú að þessi ríkisstjórn eins og ég sagði áðan, ég nefndi ekki persónur í því, hefði sýnt af sér alvarlega vanrækt og stórkostlegt hirðuleysi í þeim skilningi sem við erum að ræða. (PHB: Það eru allir sammála því.) Nei, ekki þú, ekki þú. (PHB: Jú.) Alvarlega vanrækt og stórkostlegt hirðuleysi. Þú ert ekki sammála því (Forseti hringir.) miðað við þinn málflutning vegna þess að þú ætlar ekki að senda neinn fyrir landsdóm, þú ætlar að verja þína menn til síðasta blóðdropa.