138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Sé seinni kosturinn tekinn áttu þeir sem ekki vissu hvað þeir voru að gera og ekki vissu hvað þeir áttu að taka til ráðs og fengu upplýsingar sem þeir gátu ekkert notfært sér að víkja fyrir öðrum. Ósköp einfaldlega áttu þeir að gera það. Það sem skiptir hins vegar máli fyrir okkur er í raun og veru ekki það sem við köllum ábyrgð, hvort sem hún er almenn eða sértæk, það sem skiptir máli hér er að stjórnarskráin gerir okkur að fara í ákveðið ferli þegar vanrækt, athafnir eða athafnaleysi af því tagi að það hafi leitt til mikillar hættu, þ.e. hefur leitt þjóðina út í mikla hættu, og þessar athafnir eða athafnaleysi hafa gert afleiðingarnar mun verri en þó hefði verið hægt að komast af með. Þá segir stjórnarskráin ósköp einfaldlega við okkur sem þingmenn, ekki við okkur sem Mörð Árnason eða Guðmund Steingrímsson sem geta verið vinir eða óvinir, að við eigum að fara í ákveðið ferli og í því ferli eigum við að skoða nægilegar eða líklegar sakargiftir til að leiða til sakfellingar. Það er þannig.

Þegar menn hafa komist að því geta menn, þetta er a.m.k. eins og ég horfi á það, velt því fyrir sér: Hvað um þjóðarhagsmuni o.s.frv. o.s.frv.? Í þingflokki mínum spurðum við Róbert Spanó um þetta: Hvaða pólitísku afstöðu getum við tekið? Voru nefnd nokkur dæmi og ég vona að ég sé ekki að bregðast Róberti Spanó með því að segja eftirfarandi: „Þið hafið leyfi til að gera það allt saman þegar þið hafið svarað þessari grundvallarspurningu. Þið hafið meira að segja leyfi til að segja: Ég ætla ekki að ákæra af því að hann er vinur minn. Ég ætla að segja nei af því að hann er vinur minn. En þá skuluð þið“ — sagði Róbert Spanó — „vera reiðubúin að koma og segja það í ræðustól Alþingis.“