138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:41]
Horfa

Víðir Smári Petersen (S):

Virðulegi forseti. Ég stend í þessum ræðustól hér í fyrsta sinn og ég heiti Víðir Smári Petersen og er laganemi við Háskóla Íslands. Ég er að skrifa mastersritgerðina mína um mannréttindi og eru mannréttindi og réttlæti því mér mjög hugleikin. Að vera laganemi þýðir að ég mun að öllum líkindum helga líf mitt vinnu við lög, hvort sem það verður að túlka og beita lögum eða jafnvel breyta þeim og bæta.

Í laganámi mínu hef ég lært að beita íslenskum lögum, lögum sem Alþingi og þar með þið setjið. Ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem hér er unnið og gaf því kost á mér á lista fyrir síðustu kosningar. Mig langar til að taka þátt í því lagasetningarferli sem hér fer fram, lagasetningarferli sem á að byggja á réttlæti og sanngirni. Réttlæti og sanngirni á að vera leiðarljós í störfum þingmanna. Mín skoðun er hins vegar sú að hvorki gæti réttlæti né sanngirni þegar mál fyrrverandi ráðherra eru rædd hér.

Ég hef fylgst með málinu sem utanaðkomandi áhorfandi og nú sem þátttakandi í þessu ferli og niðurstaða mín er einföld. Verði ráðherrarnir fjórir dregnir fyrir landsdóm á grundvelli þessara þingsályktunartillagna er ljóst að Alþingi hefur svipt þessa einstaklinga réttlátri málsmeðferð. Alþingi sem ákæruvald í málinu hefur þá brotið á mannréttindum þeirra og í því vil ég ekki taka þátt.

Við skulum fara yfir aðdraganda málsins sem hér er til umræðu. Það varðar hvort draga eigi fjóra fyrrum ráðherra fyrir landsdóm. Rannsóknarnefnd Alþingis var sett á laggirnar í kjölfar bankahrunsins og skilaði glæsilegri skýrslu í vor sem hjálpaði almenningi að átta sig á því sem gerðist fyrir fall bankanna. Þingmannanefndin sem var síðan skipuð á þessu ári átti að hafa það hlutverk að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Málsmeðferð þingmannanefndarinnar virðist hafa verið með þeim hætti að nefndin las skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og grundvallaði niðurstöður sínar á henni, eingöngu af þeim lestri. Þetta var gert bak við luktar dyr og enginn var kallaður til sem þingmannanefndin taldi að hefði gerst sekur um einhvers konar vanrækslu eða refsiverða háttsemi. Það eina sem þingmannanefndin gerði var að senda öllum ráðherrunum sem voru í ríkisstjórn á árunum 2007–2009 bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að tjá sig um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þetta ferli minnir mig að nokkru leyti á skáldsöguna Réttarhöldin eftir Franz Kafka sem ég las nú nýlega. Þar var aðalpersónunni Jósef K. gefið að sök að hafa framið refsiverðan verknað. Gallinn var hins vegar sá að honum var ekki sagt í hverju sá refsiverði verknaður fólst. Var hann yfirheyrður af ákæruvaldinu og dreginn fyrir dómstól og spurður um þann verknað sem hann framdi. Ómögulegt var hins vegar fyrir hann að svara þessum spurningum enda vissi hann ekki hvað honum var gefið að sök.

Eins er með andmælabréfin sem þingmannanefndin sendi ráðherrunum fjórum. Hverju áttu ráðherrarnir að svara? Þau vissu ekkert hvað þeim var gefið að sök og sérstaklega ekki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum hæstv. utanríkisráðherra, sem var ekki einu sinni talin hafa gerst sek um vanrækslu í rannsóknarskýrslu Alþingis. Opið andmælabréf vegna niðurstöðu skýrslu annarrar nefndar getur ekki komið í stað réttlátrar málsmeðferðar þar sem fólk fær réttarstöðu sakborninga.

Það sem er hins vegar sérstakt í þessu máli er að Alþingi fer með ákæruvaldið. Alþingi, grundvallarstofnun samfélagsins, fer með ákæruvaldið í málinu og ber að nota það af skynsemi en ekki notfæra sér það. Í Tamílamálinu svokallaða í Danmörku, þar sem landsdómur kom síðast saman þar í landi, var málsmeðferðin öll mun ígrundaðri og réttlátari. Danska þingið setti á stofn eins konar rannsóknardómstól sem hafði það verkefni að yfirheyra vitni og sakborninga og leggja grundvöll að ákærum fyrir landsdómi. Haldin voru 104 þinghöld og 61 vitni kom fyrir dómstólinn. Ekki nóg með það, heldur voru réttarhöldin öll sýnd í beinni útsendingu. Þetta kalla ég, virðulegi forseti, réttláta og opna málsmeðferð.

Þingmannanefndin hér á landi tók hins vegar allar sínar ákvarðanir á bak við luktar dyr án þess að veita nokkrum tækifæri á því að útskýra sína hlið á málinu. Ekkert þeirra sem ætlunin er að ákæra fékk tækifæri til að halda uppi vörnum. Meginregla íslensks réttarfars er að sakborningar fái tækifæri til að gefa munnlega skýrslu um sakarefnin sem á þá eru borin. Mikilvægt er að virða þessa reglu hvort sem um er að ræða smærri eða stærri mál, hvað þá þegar einstaklingar eru sakaðir um að hafa valdið heilu bankahruni eða jafnvel heilu kerfishruni.

Í Tamílamálinu var ákæruatriðið mun takmarkaðra en hér á landi og þar var aðeins einn ráðherra ákærður fyrir eitt brot. Í þessu máli ræðum við hvort ákæra eigi fjóra ráðherra fyrir að hafa valdið heilu bankahruni. Samt sem áður hefur enginn haft tækifæri á að tjá sig fyrir þingmannanefndinni eða Alþingi sem fer með ákæruvaldið.

Frú forseti. Það er ekki eingöngu málsmeðferðin sem er athugaverð í þessu máli heldur eru ákæruatriðin mjög óljós. Þannig er öllum ráðherrunum fjórum til dæmis gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli. Þetta finnst mér mjög matskennt ákæruatriði. Þó að ljóst sé að svona fagleg greining hefði verið æskileg með tilliti til aðstæðna á þeim tíma er ekkert sem gefur vísbendingar um að slík greining hefði getað komið í veg fyrir bankahrun.

Það hefði verið hægt að vinna þessi ákæruatriði mun betur og gera þau mun ljósari ef ráðherrunum hefði verið gefið tækifæri á að svara fyrir sig. Þá hefðu ákærurnar ekki verið svona matskenndar og auðveldara hefði verið að benda á einhverja afmarkaða þætti sem skiptu máli. Í staðinn fyrir að veita ráðherrunum tækifæri á málsvörn til þess að skýra málsatvikin með fullnægjandi hætti þarf málsvörn þessara aðila að fara fram á samskiptasíðunni Facebook og í fjölmiðlum. Málsvörnin átti sér ekki stað fyrir framan þingmannanefndina eða fyrir framan Alþingi sjálft, heldur fer hún fram á internetinu. Hugsið ykkur, kæri þingheimur, að við skulum búa í landi þar sem menn þurfa að verja æru sína á netinu vegna þess að ákæruvaldið gefur þeim ekki færi á málsvörn. Dæmi um þetta er sú málsvörn sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir nú að hafa uppi á Facebook og með fréttatilkynningum í fjölmiðlum.

Mig langar með leyfi forseta að gefa þingheimi innsýn í hennar orð. Hún sagði til dæmis á Facebook laugardaginn 18. september síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Mér var boðið að bregðast við þessari niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og ég gerði það. Ég hafði engin andmæli uppi af þeirri ástæðu að ég var ekki borin neinum sökum.“

Þá undrast Ingibjörg Sólrún, fyrrum utanríkisráðherra, að formaður þingmannanefndarinnar hafi litið svo á að hún hefði komið sjónarmiðum sínum á framfæri með því að gefa henni kost á andmælum.

Virðulegi þingheimur. Þetta er ekki sú málsmeðferð sem ég vil sjá á Alþingi, að þeir sem bornir eru sökum af ákæruvaldinu þurfi að hefja upp málsvörn sína á Facebook og verja þar æru sína.

Mig langar líka að minna á að ráðherrar eru manneskjur með hugsanir og tilfinningar, og þetta mál er þeim þungbært eins og öðrum einstaklingum sem eru ákærðir og dregnir fyrir dóm. Þannig sagði Ingibjörg Sólrún á Facebook-síðu sinni 14. september síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Þegar ósköpin dundu yfir á laugardaginn fór ég að ráði skjaldbökunnar þegar hún skynjar hættu — dró mig inn í skelina. Þar er gott að hugsa.“

Það þarf ekki frekari orð. Ingibjörg, Geir, Árni og Björgvin eru manneskjur og mannréttindi þeirra ber að virða. Þau eiga skilið þá réttlátu málsmeðferð sem þingmannanefndin ákvað að svipta þau. Alþingi sem fer með ákæruvaldið skuldar þeim réttláta málsmeðferð.

Mér hefur orðið tíðrætt um réttláta málsmeðferð og mikilvægi hennar. Ástæðan er einfaldlega sú að réttlát og sanngjörn málsmeðferð er einn grundvöllur þess að hægt sé að segja að við búum í sanngjörnu, réttlátu og lýðræðislegu samfélagi. Á Íslandi höfum við verið þeirrar gæfu aðnjótandi að ákæruvaldið nýtur almennt mikils trausts, trausts sem ekki er auðunnið. Það er hins vegar svo að ýmsar stofnanir samfélagsins hafa brugðist almenningi í gegnum tíðina. En Alþingi er stofnunin þar sem grunnurinn er lagður, grunnurinn að réttlátu og sanngjörnu þjóðfélagi. Hér eru lög sett með yfirveguðum hætti, lagafrumvörp fara í gegnum þrjár umræður, miklar rökræður og yfirvegað nefndastarf. Alþingi á aldrei að taka ákvarðanir í flýti og með friðþægingarþörf að leiðarljósi. Þar sem Alþingi fer með ákæruvald í þessu máli er nauðsynlegt að það svipti ekki fólk réttlátri málsmeðferð eingöngu vegna friðþægingar eða jafnvel pólitískra skylminga.

Sú gagnrýni sem ég viðhef hér finnst mér að varði ekki einungis hagsmuni þessara fjögurra einstaklinga, hagsmunirnir eru í raun miklu meiri. Þeir varða þjóðar- og almannahagsmuni vegna þess að fólk verður að finna að það sé öruggt, búi í sanngjörnu og réttlátu landi og má aldrei fá það á tilfinninguna að öryggisventill þess, Alþingi og ákæruvaldið, bregðist því þegar á bjátar.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að ég vildi ekki taka þátt í að brjóta á mannréttindum nokkurs manns. Ég hef rakið það hér að umrædd ákæruatriði eru mörg hver óljós. Þar að auki er málsmeðferðin ósanngjörn og stangast á við mörg grundvallarsjónarmið um mannréttindi. Ég tel því miklar líkur á því að ákæruatriðunum verði vísað frá fyrir landsdómi eða ráðherrarnir sýknaðir. Ef það gerist hefur Alþingi eytt bæði miklum tíma og fjármunum til einskis, eingöngu vegna fljótfærni og skorts á vönduðum vinnubrögðum. Hin ætlaða friðþægingarþörf verður þó miklu meiri þegar almenningur verður reiður yfir því að illa var staðið að öllum málatilbúnaði.

Ég hef áður sagt að ég hef í gegnum laganám mitt haft mikla trú á Alþingi sem stofnun. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að það muni aldrei gleymast að sjálft Alþingi Íslendinga hafi svipt fólk réttlátri málsmeðferð til þess eins að friðþægja. Ég hef líka miklar áhyggjur af því að það verði erfitt fyrir Alþingi að endurheimta þetta traust, hvort sem það er hjá minni kynslóð eða komandi kynslóðum.

Líkt og ég sagði í upphafi stend ég í þessum ræðustól í fyrsta sinn. Umræðuefnið er mikilvægt fyrir þingheim, einstaklingana sem um ræðir og almenning í landinu. Ég veit hins vegar að það er til mikils ætlast að biðja ykkur, hv. þingmenn, um að hlusta á eða taka mark á ungum laganema. Engu að síður langar mig að biðja ykkur um að greiða ekki atkvæði með þeim þingsályktunartillögum sem hér liggja fyrir. Mig langar jafnframt að biðja ykkur um að nota Alþingi sjálft aldrei sem vettvang til að brjóta á mannréttindum nokkurs manns.