138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:55]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum. Lagt er til að mál sé höfðað vegna meintrar vanrækslu þriggja eða fjögurra ráðherra í aðdraganda falls bankanna í október 2008. Vanrækslan er að mati flutningsmanna fólgin í afskiptaleysi, fólgin í því að ekki var brugðist við þeim aðvörunarmerkjum sem blikkuðu ákveðið um að vandi fjármálafyrirtækja og þar með íslensks efnahagslífs væri kominn á hættustig.

Í umræðunni um tillögurnar hefur mikið verið rætt um form þeirra og aðdraganda. Nú liggur fyrir álit meiri hluta allsherjarnefndar um að tillagan standist ákvæði stjórnarskrár og mikils metnir fræðimenn á sviði refsiréttar hafa fullvissað þingmenn um að málsmeðferðin brjóti ekki gegn mannréttindum þótt hún sé öðruvísi en nú tíðkast við meðferð sakamála. Það er því ljóst að það er fyrst og fremst efni tillögunnar sem við þingmenn í stöðu ákæruvaldsins þurfum að taka afstöðu til. Það hefði verið ósköp þægilegt að geta varið sig í þessu erfiða máli með því að fá vanhæfissamþykkt þegar þeir sem lagt er til að sé höfðað mál gegn eru fyrirmyndir og félagar úr pólitíkinni, skólasystkin og ágætir kunningjar. En um það er ekki að ræða fyrir alþingismenn og -konur og því er ekki annað í stöðunni en að hefja sig upp úr sjálfum sér og meta málið hlutlægt með þeim gögnum sem fyrir liggja.

Þá ber fyrst að skoða kæruatriðin, alvarleg vanræksla á starfsskyldum andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir fjármálastofnunum og ríkissjóði sem þeim var eða mátti vera kunnugt um og hefðu getað brugðist við með ýmiss konar aðgerðum til að afstýra eða minnka fyrirsjáanlega hættu fyrir heill ríkisins. Að hafa ekki átt frumkvæði að því að unnin væri heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir. Að hafa ekki með virkum aðgerðum unnið að því að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Að hafa ekki fylgt því eftir að Icesave-reikningarnir í Bretlandi yrðu fluttir yfir í dótturfélag.

Þessi háttsemi varðar við b-lið 10. gr. laga um ráðherraábyrgð en þar stendur, með leyfi forseta, að ráðherra sé sekur eftir þeim lögum „ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir“.

Þá er lagt til að mál sé höfðað á grundvelli ákvæðis 17. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um skyldu til þess að halda ráðherrafundi um „mikilvæg stjórnarefni“ sem yfirvofandi háski fjármálakerfisins hlýtur að teljast. Brot á þessu ákvæði varðar við c-lið 8. gr. laga um ráðherraábyrgð en þar segir að það varði við ráðherraábyrgð ef ráðherra „lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, eða lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem þar er fyrirskipað eða veldur því, að framkvæmd þess farist fyrir.“

Þegar ég tók mína ákvörðun um hvort ég væri sammála því hvort höfða bæri mál gegn þeim ráðherrum sem hér um ræðir skoðaði ég gögn sem snerta þessa þætti. Í mínum huga eru þeir aðilar sem hér eru til umræðu ekki sakamenn í daglegum skilningi þess hugtaks. Þeir ætluðu ekki að valda almenningi á Íslandi skaða og þeir eru ekki höfundar þeirrar atburðarásar sem olli hruninu. Þar eru aðrir leikendur í aðalhlutverki. Því þarf að halda hátt á lofti í þessari umræðu. Hruninu olli skefjalaus græðgi og misnotað eftirlitslaust frelsi en það var ekki nafnlaus persónulegur gerningur, fyrningarreglur bjarga persónum í þessari lotu. En ég tel að þótt ekki sé um orsakavalda að ræða verði að skoða það mjög gaumgæfilega hvernig þeir ráðherrar sem við tölum um nú brugðust við þeim einkennum sem blöstu við í efnahagslífi þjóðarinnar á þeirra vakt. Mikið hefur verið rætt um þá fullyrðingu að ekki hafi verið hægt að bjarga bankakerfinu áfallalaust eftir 2006 og því einkennilegt að sakfella þá sem tóku við völdum 2007. Ég lít málið öðrum augum. Ef staðan var svo alvarleg 2006 að við hruni var búist var enn mikilvægara að grípa til aðgerða árin 2007 og 2008 til að lágmarka tjónið íslensku samfélagi til heilla.

Í umfjöllun Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns um ráðherraábyrgð í Tímariti lögfræðinga frá 2009 segir hann, með leyfi forseta:

„Brot samkvæmt 10. gr. er fullframið um leið og framkvæmd eða framkvæmdaleysi hefur átt sér stað sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Orðalagið „fyrirsjáanleg“ hætta lýtur að verknaðinum, þ.e. að ráðherra hafi séð eða átt að sjá það fyrir að verknaði var svo háttað. Í orðalaginu felst því almennt eða hlutlægt skilyrði. Það skiptir ekki máli hvort ráðherra hafi í raun séð hættuna fyrir eða ekki. Hafi hann séð hættuna fyrir en samt sem áður framkvæmt verkið eða látið undir höfuð leggjast að afstýra því þótt hann hafi séð að hætta mundi hljótast af vanrækslu hans, hefur hann gert sig sekan um ásetningsbrot. Hafi hann ekki séð hættuna fyrir, þrátt fyrir að hún hafi verið fyrirsjáanleg, hefur hann gert sig sekan um stórkostlegt hirðuleysi. Í báðum tilvikum sætir hann ábyrgð, sbr 2. gr. laganna.“

Þær heimildir sem við höfum um fundi og upplýsingastreymi um fjármálakerfið og stöðu þess og áhrif á efnahag íslensks samfélags milli þeirra ráðherra sem við ræðum hér benda mjög ákveðið til þess að þeim hafi mátt vera hættan ljós. Þau gripu til ákveðinna aðgerða en leituðu sér ekki ráðgjafar og upplýsinga á nægilega markvissan og faglegan hátt, fylgdu málum ekki nógu ákveðið eftir, unnu ekki nógu vel saman að lausnum og héldu upplýsingum leyndum hvert fyrir öðru í stað þess að deila þeim, ræða þær, gera áætlanir um aðgerðir og fylgja þeim síðan afar fast og markvisst eftir. Vald þeirra yfirgnæfði á köflum skynsemina. Oft hafði verið þörf á stefnufestu og formfestu en aldrei sem þarna — efnahagur ríkis, fyrirtækja og heimila var í húfi. Ég minni á umfjöllun um stefnufestu og formfestu í skýrslum rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar og í ræðu minni um skýrslu þingmannanefndarinnar — þessara vinkvenna var sárlega saknað í íslenskri stjórnsýslu og skortur á þessum vinnubrögðum talinn eiga sinn þátt í hruninu.

Þótt lög um ráðherraábyrgð geri ráð fyrir því að hver ráðherra beri ábyrgð á sínum málaflokki er erfitt að horfa fram hjá því að verksvið voru ekki í heiðri höfð á þessum tímum. Formenn stjórnarflokkanna gegndu eðlilega lykilhlutverki í erfiðum málum, verksvið riðluðust því og þar með ábyrgðarsvið. Það hlýtur að kalla á ábyrgð þegar ábyrgð er tekin á málaflokk í hita leiksins. Það firrir þó fagráðherra ekki ábyrgð á því að sýna frumkvæði og leita sér upplýsinga um mál sem hann fréttir af á öðrum fundum á hans ábyrgðarsviði. Það er afar erfitt að firra þá ábyrgð sem taka ábyrgð á vinnu annarra svo og þá sem sýna ekki sjálfsagt frumkvæði að því að afla sér upplýsinga um verkefni á eigin verksviði.

Ímynd og ímyndarvandi eru hugtök sem voru mikið notuð á góðæristímanum. Það var oft sussað þegar gagnrýnisraddir heyrðust, raddir sem gagnrýndu útrás, bólgið bankakerfi, ofurlaun, styrki til stjórnmálamanna, uppspennt húsnæðisverð, fjölda bygginga o.fl., þóttu afturhaldssamar og líklegar til að tala niður íslenska fjármálaundrið og hina snöggríku auðstétt. Ímynd Íslands sem snilldarríkis á sviði fjármála gæti skaddast og lánalínur lokast. Stjórnmálamenn tóku þátt í ímyndarleiknum og lofuðu hið íslenska fjármálaundur svo seint sem á vormánuðum 2008 — ekki mátti skaða lánamöguleika fjármálafyrirtækjanna þó svo að markviss minnkun fjármálakerfisins væri eitt af því sem ráðgjafar okkar lögðu til. Getur verið að „þetta reddast“-hugtakið íslenska hafi verið orðið allsráðandi í íslenskri stjórnsýslu í góðum félagsskap þöggunar og þröngs valdahroka fólks sem þorði ekki að segja félögum sínum frá vandanum, þorði ekki að leita sér markvissrar ráðgjafar, hvað þá að fara eftir henni, vegna hræðslunnar við að spilaborgin myndi hrynja á þeirra vakt? Ímyndin mundi kollsteypast yfir þau með hræðilegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag. Ég ítreka að þetta fólk lagði ekki grunninn að spilaborginni en hún hrundi á þess vakt og allt bendir til þess að með öðrum vinnubrögðum hefði mátt minnka skaðann.

Þegar ég hef talað við sjálfa mig um þetta mál til að reyna að skilja það betur og heimfæra það upp á minn reynsluheim sem kennara sé ég fyrir mér að ég taki við erfiðum 5. bekk sem hefur fengið slæma skólabyrjun, fengið að vaða uppi og lítið lært. Mér er falið það verkefni að sjá um þennan bekk, að hann nái markmiðum sínum um nám og þroska. Ég get auðvitað ákveðið að þetta sé óalandi lið og ekki til neins að leggja það á sig að reyna að snúa þróuninni við og lifað bara við ástandið frá degi til dags. Ég gæti gripið til einnar og einnar ráðstöfunar og vonað það besta. Mér finnst það þó fráleit niðurstaða, heill hóps ungmenna er í húfi og því þarf að taka fast á málum, af formfestu og stefnufestu í samvinnu við börnin sjálf og forráðamenn þeirra, samstarfsmenn og sérfræðinga. Fagmennska manns og heiður á að vera í húfi fyrir því hvernig til tekst og það dugir skammt að setja einhverjar lausnir af stað, það þarf mikla eftirfylgni og stöðugt samráð til að góð lausn finnist þessum hópi til heilla.

Auðvitað er þessi líking ekki að öllu leyti sambærileg því efni sem hér er rætt en þó má finna sameiginleg einkenni. Þegar heill íslensks samfélags er í húfi má gera kröfur um að völd og ímynd séu aukaatriði, markviss greining, fagleg ráðgjöf, öflug aðgerðaáætlun og massíf eftirfylgni eru vinnubrögð sem Íslendingar eiga heimtingu á þegar samfélag þeirra hangir á heljarþröm, tal um að allt sé í góðu lagi, bendingar á ábyrgð ráðherrans við hliðina um leið og haldið er fast í valdið, ein og ein samhengislaus aðgerð og fleira í þessum veikburða dúr breyta litlu um heljarþrömina. Því verður að telja að ráðherrarnir fjórir sem við ræðum hér hafi látið hjá líða að framkvæma allt sem í þeirra valdi stóð til að afstýra yfirvofandi hættu.

Þetta segi ég með sorg í hjarta því að mér finnst afar erfitt að leggja það til að höfðað verði mál gegn þessu ágæta fólki sem ekki lagði grunninn að spilaborginni. En samviska mín segir mér það mjög ákveðið að annað sé ekki hægt. Svo miklir hagsmunir voru í húfi að m.a.s. lágstemmd hættumörk hefðu átt að setja allar varnir sem íslensk stjórnsýsla bjó yfir samstundis af stað. Mér ber sem þingmanni að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi umfram allt.

Ég ætla að reyna að starfa eftir ályktun þingmannanefndarinnar sem segir að alþingismönnum beri að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum svo Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. Á orðum mínum hér á undan og þessari ályktun byggi ég mína afstöðu.

Það er afar mikilvægt á tímum sem þessum að ná sátt í þjóðfélaginu. Margir eiga um sárt að binda efnahagslega sem hefur áhrif á alla þeirra líðan. Það má ekki vera til að friðþægja fyrir gerðir annarra að sumir vilja að fyrrum ráðherrar séu ákærðir fyrir vanrækslu. Það er ekki gert til að friða almenning eða bara til að gera eitthvað. Mannfórnir og nornaveiðar heyra sögunni til. Það eru réttlætisástæður sem kalla á málshöfðun, ekki hefndarþorsti. Óháð því hvernig þetta mál fer verða aðilar íslensks samfélags að setjast að samningaviðræðum þar sem vandi er greindur, markmið sett með tímasettri aðgerðaáætlun og reglulegum endurskoðunardagsetningum. Staða margra heimila og fyrirtækja er háalvarleg og það sama á við um ríkissjóð. Það verður því að nást öfgalaus samstaða um hvernig við komumst yfir síðasta hjallann um leið og við gætum þess að minna hvert annað á að við ætlum aldrei aftur að detta ofan í loftbólupyttinn. Hjálpumst að við að girða fyrir slíkt slys. Ályktun þingmannanefndarinnar á við á öllum sviðum — íslensk þjóð þarf að sýna hugrekki, heiðarleika og festu til að skapa traust og samstöðu. Almenningur, atvinnulíf og stjórnvöld geta vonandi sameinast á sanngjarnan hátt um það.