138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:59]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Pólitísk ábyrgð er svo vítt hugtak að það hefur engin skilgreining komið fram á því í þessum umræðum og allra síst í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Að sjálfsögðu snýst þetta mál ekki fyrst og fremst um pólitíska ábyrgð. Þetta mál snýst einfaldlega um ábyrgð. Pólitísk ábyrgð er allt annars eðlis. Hana taka menn með ferli sínum og hvernig þeir halda honum áfram og ég sé á öllu að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur ekki hugsað sér að taka neina pólitíska ábyrgð á störfum sínum í hrunstjórninni. Það stendur ekki til að draga hana fyrir dómstól vegna pólitískra starfa sinna (Forseti hringir.) heldur snýst þetta mál um mistök í starfi og vanrækslu. Það snýst ekki um pólitík.