138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ábyrgð okkar allra er mikil hvort sem við styðjum tillögurnar eða ekki, ábyrgð okkar allra er mikil. Í því ferli erum við stödd komin að þessari endastöð sem er kannski ekki endastöð þegar upp verður staðið. Okkur ber að taka afstöðu til tillagnanna á grunni þess sem þingmannanefndin leggur fyrir okkur, á skýrslu þingmannanefndar og tillagna hennar og greinargerðarinnar, á grunni þeirra laga sem nefnd eru til en líka auðvitað á grunni sannfæringar okkar, frú forseti. Sannfæring okkar hlýtur að byggjast á reynslu okkar, hvaða stefnu við aðhyllumst og hvernig við metum það. Það er eitt af stóru matsatriðunum í þessu máli og á endanum er það hjá hverjum og einum þingmanni í þessum sal hvernig hann greiðir atkvæði. Það er mikill ábyrgðarhluti.