138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er fyrst til að svara varðandi tímamörkin að ég held að það sé ekkert meginmál hvort það hafi tekið hálft ár eða eitt ár eða þó að það taki tvö ár að ráða fram úr þessu erfiða viðfangsefni. Ég held að það sem hefði verið mest um vert og öllu máli skipt væri að menn hefðu komist að niðurstöðu sem einhver sæmileg samstaða gæti verið um vegna þess að með því að ljúka málinu núna er málinu ekkert lokið, eins og hv. þingmaður segir, þegar við skiptumst í tvær ólíkar fylkingar um hvort fara eigi í austur eða vestur. Um það sem snýr að fagráðherra og skyldu hans um upplýsingar er ég að mörgu leyti sammála hv. þingmanni, auðvitað er hægt að ætlast til þess að ráðherra átti sig á öllum meginatriðum sem í hans umhverfi eru og að hann kalli eftir upplýsingum. En það verður þó að telja alveg sérstakt að tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi málasvið eins ráðherra, um nauðsyn á aðgerðum á því sviði strax, og ábendingar Englandsbanka um að nauðsynlegt sé að grípa þegar í stað til róttækra aðgerða á því málasviði og tilboð um aðstoð við það, skuli ekki hafa ratað til fagráðherra — ég held að það sé óhætt að segja að það hljóti að vera eitt af því sem í þessu ferli er sem vekur mann til umhugsunar.