138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki sagt að ég sé sannfærður um að alþingiskosningar séu til þess fallnar að leysa þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég veit ekki hvort það væri rétt af okkur í þessum sal að víkjast undan því að taka á honum, sem er okkar sameiginlega skylda hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, með því að kalla til kosningar.

Það má þó taka undir það með hv. þingmanni að eftir jafnmiklar hamfarir og hér urðu er það viðbúið að hér geti kosningar orðið tíðari en við höfum átt að venjast og að ríkisstjórnir sitji ekki nauðsynlega út tímabil sín vegna þess að við og almenningur höfum þörf fyrir að gera þessa hluti upp í meiri mæli en verið hefur. Ég kalla þó ekki eftir því að það verði núna.