138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna myndlíkingar hv. þingmanns um rifin net þá vil ég upplýsa hann um að ég er prýðilegur í að taka í kríu og get bara gert það vel.

Hitt ætla ég svo að segja að þegar þingmaðurinn segir að ég hafi ekkert vald til að dæma, þá er það nákvæmlega það sem ég var að segja í ræðu minni. Þetta er ekki dómsalur og við eigum ekki að dæma. Alþingi á ekki að dæma, til þess eru dómstólar. Það er fjallað um það í löggjöf okkar með hvaða hætti farið er með mál af þessum toga. (ÁJ: Var með líkingunni …) Ég svaraði henni áðan og ég tel hins vegar að ef við tökum ákvörðun hér um að taka vinnu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar og ýta henni út af borðinu og segja: Við ætlum að setja kíkinn fyrir blinda augað og við ætlum ekki að láta þessi mál fá eðlilega og réttláta málsmeðferð, þá sé það sýknudómur sem hv. þm. Árni Johnsen virðist vera reiðubúinn (Forseti hringir.) til að taka sér vald til.