138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar var merkileg fyrir þær sakir að í henni staðfesti hv. þingmaður og rammaði inn þá skoðun sína að hann vill efna til pólitískra réttarhalda yfir ráðherrunum fjórum og koma yfir þá pólitískri ábyrgð í formi sakamáls. Hann vill ákæra fólk fyrir glæpsamlegt athæfi til að fá uppgjör við pólitíska hugmyndafræði sem er honum ekki þóknanleg.

Hann talar um pólitísk dómsorð sem felast í því að vilja ekki gefa út ákæru og ég mótmæli þeim málflutningi. Hann ruglar algerlega saman pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð enda gerði hv. þingmaður enga einustu tilraun til þess í ræðu sinni að færa rök fyrir því að ráðherrarnir fjórir hefðu bakað sér refsiábyrgð með gerðum sínum. (Forseti hringir.) Það er algerlega fráleitt að hv. þingmaður sem flytur svona ræður skuli telja sig vera í þeirri stöðu (Forseti hringir.) að kalla málflutning annarra hv. þingmanna óboðlegan (Forseti hringir.) vegna þess að þessi ræða var óboðleg af þeim ástæðum sem ég hef rakið.