138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Afleiðingar þess að þessi mál voru ekki tekin upp á ríkisstjórnarfundum í trúnaði — þegar um viðkvæm mál er að ræða er eðlilegt og er gerð tillaga um það í okkar skýrslu að það verði haldin trúnaðarmálabók — urðu mjög miklar. Það var vegið að undirstöðu lýðræðisskipulags okkar og það var vegið að einu brýnasta hlutverki Alþingis sem er eftirlitshlutverkið og það var eins og ég hef áður sagt rofin ráðherraábyrgðarkeðja.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur lengi haldið því fram að ef skipaður hefði verið tilsjónarmaður með bönkunum í febrúar eða mars 2008 hefði orðið hrun. Það varð hrun, hv. þingmaður, það varð hrun og það varð síðar. Það varð níu mánuðum síðar en fyrsta spáin kom fram, nákvæmlega í samræmi við spána. Þessi dráttur á því að taka á málunum varð til þess að ríkið, heimilin í landinu, fólkið í landinu, fyrirtæki í landinu urðu fyrir geigvænlega mun meira tjóni sem skipti hundruðum milljarða. Ég get alveg fullyrt að við stæðum betur að vígi í dag ef hrunið hefði orðið níu mánuðum fyrr þegar teikn voru á lofti.

Síðan enn og aftur, hv. þingmaður, varðandi réttláta málsmeðferð þá mælir 70. gr. stjórnarskrárinnar fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og grundvallaratriðið í öllu réttarfari, bæði opinberu og einkamálaréttarfari, er sönnunarfærsla fyrir dómi þar sem viðkomandi hafa tryggða réttarstöðu að öllu leyti. Og þingmannanefndin, verð ég að segja að gefnu tilefni, var þingmannanefnd með réttarstöðu þingmannanefndar samkvæmt þingsköpum, sem sérstaklega er vísað til um nefndina, en ekki með lögregluvald.