138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:05]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 20. mars 2003 tóku þeir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, einhliða ákvörðun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar um að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Sú ákvörðun var gerð án nokkur samráðs við Alþingi, í blóra við lög um þingsköp Alþingis sem kveða á um samráð við utanríkismálanefnd í svo örlagaríkum málum, og þessi ákvörðun gerði Ísland, vopnlausa þjóð í friðsælu landi, að sérstökum stuðningsaðila í hildarleik sem kostaði að lágmarki 100.000 óbreytta borgara lífið. Að lágmarki. Sumar heimildir herma að tala fallinna hafi verið margfalt hærri. Þessi árás var síðar lýst ólögmæt að alþjóðalögum og í andstöðu við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessir ráðherrar voru ekki dregnir fyrir landsdóm fyrir þessa afdrifaríku ákvörðun þótt full ástæða hefði verið til.

Þessir sömu ráðherrar, auk Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, báru meginábyrgð á einkavæðingu bankanna sem lauk um svipað leyti og við vitum nú að var ein af rótum bankahrunsins. Þessi ráðherrar voru ekki og verða ekki dregnir fyrir landsdóm fyrir aðgerðir sínar á þessum árum. En í dag greiðum við þingmenn atkvæði um það hvort fjórir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn síðustu 16 mánuðina fyrir bankahrun skuli fyrstir manna í sögu lýðveldisins dregnir fyrir landsdóm og ákærðir fyrir refsiverða háttsemi. Sá atburður var sannarlega fordæmalaus í sögu Íslands og pólitísk ábyrgð þessara aðila skýr. Við þurfum hins vegar að spyrja okkur: Er það í samræmi við kröfur okkar um réttlæti að draga þessa einstaklinga til refsiábyrgðar meðan þeir aðilar sem raunverulega báru mesta stjórnsýslulega ábyrgð á aðgerðum og athafnaleysi í aðdraganda bankahrunsins fram til 2007 sleppa í skjóli lagatæknilegra atriða?

Þetta er samviskuspurning sem ég vona að hver svari eftir bestu sannfæringu síðar í dag.

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni ræðum við hér á Alþingi hvort ákæra skuli tiltekna fyrrverandi ráðherra fyrir embættisbrot á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Tilefnið er fordæmalaust hrun fjármálakerfis landsins á haustmánuðum 2008. Aðdraganda og orsökum hrunsins hafa verið gerð afar góð skil í vandaðri skýrslu rannsóknarnefndar þingsins. Á grundvelli þeirrar skýrslu, andmælabréfa ráðherra og gagna sem þingmannanefnd Alþingis aflaði eru byggðar tillögur nefndarmanna í þingmannanefnd um að höfða skuli mál á hendur þremur til fjórum ráðherrum sem sátu í ríkisstjórn á þessum árum, 2007–2009.

Lagt er til að mál verði höfðað á grundvelli laga um ráðherraábyrgð sem byggja á 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum og Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Þetta er lykilhugtak í þessu máli, embættisrekstur. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra, þ.e. fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi viðkomandi ráðherra sem slíkra. Í 4. gr. laganna um ráðherraábyrgð sem fjallar um vanrækslu, og á því vel við um þau ákæruatriði sem hér eru til umfjöllunar, er frekar hnykkt á þessum skilningi þar sem skýrt er kveðið á um að ábyrgð vegna vanrækslu hvíli á þeim ráðherra sem málefnið heyri undir, þ.e. viðkomandi fagráðherra.

Virðulegi forseti. Þær tillögur um ákærur sem hér hafa verið lagðar fram byggja einkum á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og það liggur fyrir að ekki fór fram af hálfu þingmannanefndarinnar sjálfstæð rannsókn á þeim málsatvikum sem sakarefnin byggja á. Þess vegna er mikilvægt að fara skipulega yfir helstu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar til að átta sig á því á hve traustum grunni ákæruatriðin eru byggð.

Bankarnir féllu af því að þeir höfðu vaxið íslenska hagkerfinu yfir höfuð og stjórnvöld höfðu ekki burði til að verja þá falli. Bankakerfið var allt of stórt, gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans allt of lítill og trúverðugleiki íslensku bankanna á erlendum fjármálamörkuðum fór ört þverrandi. Efnahagur og útlán bankanna uxu meira en innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki þessum mikla vexti. Aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum var helsta forsenda mikils vaxtar bankanna, einkum á árunum 2004–2006 þegar vöxtur þeirra var hvað mestur. Í meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra.“

Í upphafi árs 2006 var krónan mun sterkari en staðist gat til lengdar. Viðskiptahallinn var kominn yfir 16% af vergri landsframleiðslu. Skuldir þjóðarbúsins í erlendum gjaldmiðlum umfram eignir nálguðust að stærð verga landsframleiðslu og efnahagsreikningur þjóðarbúsins var því veikur. Í meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir í 1. bindi á bls. 35, með leyfi forseta:

„Á þessum tíma voru því þegar til staðar allar forsendur fyrir fjármálakreppu. […] Ástandið róaðist þó um mitt ár 2006. Þá hélt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hins vegar áfram að aukast og nú hraðar en fyrr. Þróunin var öll á þann veg að auka til muna líkurnar á alvarlegri fjármálakreppu.“

Efnahagsstefna íslenskra stjórnvalda á undanförnum áratug miðaði að því að skapa hámarkshagvöxt, ekki síst með fjárfestingum í stóriðju. Stjórnvöld brugðust ekki við hagsveiflum, ofþenslu eða vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu með mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum eða aðhaldssamri peningastefnu. Þvert á móti kynti ríkisstjórnin undir ójafnvæginu með því að beita sér fyrir skattalækkunum, mestu stóriðjuframkvæmdum Íslandssögunnar og breytingum á húsnæðismarkaði sem keyrðu upp húsnæðisverð, allt á sama tíma og hagkerfið var þegar á yfirsnúningi vegna þenslu. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum sem gerð voru í aðdraganda falls bankanna. Þessar ákvarðanir ásamt fleirum ýktu ójafnvægið í hagkerfinu og áttu þátt í að knýja fram harkalega lendingu íslensks efnahagslífs.

Þetta gerði ríkisstjórn þess tíma þvert á ráðleggingar innlendra og erlendra sérfræðinga og jafnvel gegn betri vitund eins og Geir H. Haarde viðurkennir í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Stefna eða öllu heldur aðgerðir Seðlabankans voru þversagnakenndar og aðgerðir of takmarkaðar til að skila árangri í baráttu við aukna skuldsetningu og undirliggjandi verðbólgu. Aðgerðirnar voru þversagnakenndar því að á sama tíma og Seðlabankinn reyndi að sporna við innlendri eftirspurn með vaxtahækkunum jókst verulega lausafjárfyrirgreiðsla bankans við bankana sem gróf auðvitað með beinum hætti undan því að vaxtahækkanir bankans hefðu tilætluð áhrif. Frá hausti 2005 til hruns 2008 hækkaði staða lána gegn veði hjá Seðlabankanum úr 30 milljörðum í rúmlega 500 milljarða.

Ég vakti athygli á því í ræðu minni við fyrri umræðu þessa máls að í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, nánar tiltekið í lok mars 2006, hafi legið fyrir upplýsingar meðal forustumanna þeirra flokka og stjórnenda Seðlabanka Íslands sem bentu til þess að fjármálakerfið hvíldi á svo veikburða stoðum að það gæti fallið hvenær sem er. Þessar upplýsingar urðu hins vegar ekki tilefni neinna markvissra viðbúnaðaráætlana eða aðgerða og þegar dráttur varð á því að fjármálakerfið yrði fyrir áfalli virðist málið hafa sofnað í stjórnkerfinu. Það var auðvitað stórkostlega ámælisvert eftir á að hyggja því að það er á þessum tíma sem rannsóknarnefndin ályktar að enn hefði verið tóm til að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisins. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar árið 2002 þurfa hins vegar ekki að óttast landsdóm því að lögin um ráðherraábyrgð fela í sér að embættisbrot ráðherra fyrnast á þremur árum. Hér er um að ræða séríslenska silkihanskameðferð á ráðherrum, í Danmörku er miðað við sama fyrningarfrest og í almennum hegningarlögum og að lágmarki fimm ár og í Noregi er fyrningarfresturinn 15 ár. Með öðrum orðum, ef við byggjum við sömu lög um ráðherraábyrgð og í Noregi væri hægt að draga þá ráðherra til ábyrgðar sem öll rök hníga til að hafi borið mesta ábyrgð á þeim hagstjórnarmistökum og vanrækslu sem ásamt glæpsamlegu athæfi bankastjórnenda leiddi til bankahrunsins en vegna misráðinna breytinga á lögum um ráðherraábyrgð árið 1963 verðum við að láta okkur nægja að fjalla um ábyrgð ráðherra sem komu til skjalanna eftir að fjármálakerfið var í reynd dauðadæmt að mati rannsóknarnefndar þingsins.

Virðulegi forseti. Það er mín ályktun af skýrslu rannsóknarnefndarinnar að meginábyrgðin á mistökum stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins liggi hjá þeim ráðherrum sem báru ábyrgð á einkavæðingu bankanna, ítrekuðum hagstjórnarmistökum á ofþenslutímum í kringum miðjan síðasta áratug og afskiptaleysisstefnu gagnvart stjórnlausum vexti bankakerfisins sem náði hámarki árið 2006. Hitt er jafnframt ljóst að ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haardes árin 2007 og 2008 báru mikla pólitíska ábyrgð, þeir höfðu a.m.k. á árinu 2008 aðgang að upplýsingum sem hefðu átt að leiða til þess að unnið væri að og hrint í framkvæmd markvissri viðbúnaðaráætlun þar sem leitað yrði allra leiða til að lágmarka tjónið fyrir almenning af yfirvofandi fjármálaáfalli. Það var ekki gert og ríkisstjórnin brást þar í varðstöðu sinni fyrir almenning. Það er mín skoðun að frammistaða ríkisstjórnarinnar árið 2008 hafi verið með þeim hætti að eðlilegt hefði verið að ráðherrar hennar, sérstaklega á þeim málasviðum sem helst tengdust hruninu, hefðu axlað pólitíska ábyrgð í kjölfar hrunsins og vikið úr embættum. Ríkisstjórnin fór að vísu frá í janúar 2009, en það gerðist vonum seinna og ekki fyrr en hún var í reynd trausti rúin meðal þjóðarinnar. Allir þeir ráðherrar sem hér er lagt til að verði ákærðir fyrir landsdómi hafa vikið úr embætti og flestir hætt afskiptum af stjórnmálum. Frá sjónarhóli pólitískrar ábyrgðar eru það eðlilegar málalyktir í ljósi þeirra hamfara sem urðu á vakt viðkomandi ráðherra.

Ráðherraábyrgð er tvenns konar, annars vegar pólitísk ábyrgð sem leiðir af þingræðisreglunni og felur í sér að meiri hluti þings geti knúið fram afsögn ráðherra og hins vegar lagaleg ábyrgð sem byggir á 14. gr. stjórnarskrárinnar og er útfærð í lögunum um ráðherraábyrgð.

Að mínu mati er pólitísk ábyrgð þeirra ráðherra sem um ræðir ótvíræð eins og ég hef vikið að en verkefni okkar hér í dag er að taka afstöðu til þess hvort lög hafi verið brotin, lög um ráðherraábyrgð frá 1963 og til vara almenn hegningarlög um stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi opinberra starfsmanna í starfi.

Virðulegi forseti. Víkjum þá að ákæruatriðunum sem hér eru til umfjöllunar. Það fyrsta sem vekur athygli þegar ákæruatriðin eru skoðuð er að þau eru í öllum meginatriðum hin sömu fyrir alla fjóra ráðherrana. Það er nær enginn greinarmunur gerður á því hvaða embætti ráðherrarnir gegndu í ríkisstjórninni. Þarna virðast flutningsmenn líta fram hjá eðli og uppbyggingu Stjórnarráðs Íslands sem til allrar óhamingju er ekki fjölskipað stjórnvald þar sem ráðherrar deila ábyrgð á stjórnarathöfnum heldur er hver ráðherra í reynd sjálfstætt stjórnvald og ábyrgur fyrir stjórnarathöfnum á sínu málefnasviði. Frumkvæðisskylda fagráðherra er því skýr samkvæmt lögum og reglum um Stjórnarráðið og lögunum um ráðherraábyrgð. Af þessu leiðir að það fær illa staðist að fjórir mismunandi ráðherrar séu ákærðir fyrir embættisbrot sem eðli máls samkvæmt er fyrst og fremst á verksviði eins þeirra. En það er þó það sem við okkur blasir í ákærutillögunum.

Virðulegi forseti. Ég tel í ljósi þess sem ég hef hér áður nefnt um ábyrgð fagráðherra á sínu málasviði að sakargiftir á hendur utanríkisráðherra fái ekki staðist. Vísað er til brota á starfsskyldum hennar sem utanríkisráðherra og reyndar oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn án þess að vísað sé í nokkurt embættisbrot hennar sem utanríkisráðherra og jafnframt án þess að fyrir liggi nein skilgreining í lögum á starfsskyldum oddvita ríkisstjórnarflokka. Ljóst er að utanríkisráðherra bjó yfir tilteknum upplýsingum um stöðu fjármálakerfisins í krafti setu á fundum fyrri hluta árs 2008, einkum með yfirstjórn Seðlabankans. Það var hins vegar ekki svo að hún sæti ein að þessum upplýsingum og þau málefni sem þar voru rædd voru ekki á hennar málefnasviði. Þáverandi utanríkisráðherra hafði því ekki vald samkvæmt lögum til að grípa til aðgerða í krafti þeirra upplýsinga sem þar komu fram. Ljóst er að ekkert þeirra ákæruatriða sem beint er gegn þáverandi utanríkisráðherra er á málasviði þess ráðherra og því fráleitt að mínu viti að sækja viðkomandi ráðherra til saka fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð á grundvelli þeirra.

Á sama hátt tel ég að sakargiftir á hendur fjármálaráðherra séu á heildina litið reistar á veikum grunni. Það má að sönnu halda því fram að þáverandi fjármálaráðherra hefði átt að láta fara fram heildstæða greiningu og mat á því fjárhagslega tjóni sem fjármálaáfall hefði fyrir ríkið. Slíkt mat hefði hins vegar ekki afstýrt hruninu eða lágmarkað tjón af völdum þess í sjálfu sér. Aðrar sakargiftir á hendur fjármálaráðherra, svo sem flutningur Icesave í dótturfélag og aðgerðir til að minnka efnahagsreikning bankanna, falla hins vegar utan verksviðs fjármálaráðherra. Ég dreg ekki fjöður yfir það að ég tel að þáverandi fjármálaráðherra hafi verið mislagðar hendur við stjórn ríkisfjármála á þessum tíma og í samskiptum við erlenda starfsbræður sína á haustdögum 2008 en ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir minn hatt að ég tel ekki að sakarefnin á hendur honum muni duga til sakfellingar.

Hvað varðar þáverandi viðskiptaráðherra er ljóst að hann bar stjórnsýslulega ábyrgð á eftirliti með framkvæmd laga um viðskiptabankana og það stóð honum því næst innan ríkisstjórnarinnar sem ráðherra bankamála að vinna að flutningi Icesave-reikninganna í dótturfélag og að minnka efnahagsreikning bankanna. Þáverandi viðskiptaráðherra hefur hins vegar þær málsbætur að unnið var að báðum þessum verkefnum á árinu 2008 þótt ekki tækist að ljúka þeim í tæka tíð með viðunandi árangri. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að það var hlutverk Seðlabanka Íslands að huga að fjármálalegum stöðugleika og Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með starfsemi viðskiptabankanna. Báðar þessar stofnanir nutu sjálfstæðis að lögum gagnvart íhlutunum ráðherra. Þá er nauðsynlegt að árétta að þáverandi viðskiptaráðherra beitti sér sérstaklega fyrir því að kaup Kaupþings á NIBC-bankanum hollenska gengju til baka en það hefði efalítið sett þann banka á hliðina fyrr en raun varð á. Þá er rétt að hafa í huga að ráðuneytið hafði ekki sömu tæki og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið til að knýja bankana til aðgerða. Þessu til staðfestingar má nefna að í yfirlýsingu sem þrír ráðherrar undirrituðu við norrænu seðlabankana 15. maí 2008 er kveðið á um að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið muni beita bankana þrýstingi til að minnka efnahagsreikninga sína. Margoft hefur komið fram að viðskiptaráðherra var ítrekað haldið utan við mikilvæga fundi ráðherra og forsvarsmanna Seðlabanka Íslands þar sem málefni fjármálakerfisins voru til umfjöllunar. Ég játa það að ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum á því stóð að viðskiptaráðherra var ekki boðaður á þessa fundi sem þó tengdust málefnum bankanna sannarlega og um þetta atriði er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis skýr eins og segir í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra bar sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar að upplýsa viðskiptaráðherra um framangreinda fundi þannig að hann gæti rækt starfsskyldur sínar.“

Ég vil taka það fram að auðvitað upphefur það ekki frumkvæðisskyldu viðskiptaráðherra að hafa ekki setið tiltekna fundi og hann fékk sannanlega ýmsar upplýsingar í sínar hendur sem fram komu á umræddum fundum, en það er líka ljóst að tilteknum mikilvægum upplýsingum var ekki miðlað til viðskiptaráðherra. Þáverandi viðskiptaráðherra var t.d. ekki kunnugt um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008 sem send var Seðlabanka Íslands og hafði að geyma tillögur til bankans um hvernig Seðlabankinn gæti knúið á um að viðskiptabankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn. Viðskiptaráðherra var heldur ekki upplýstur um erindi Mervyns Kings, seðlabankastjóra Bretlands, sem hann sendi Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2008 þar sem fram kom það álit að eina raunhæfa lausnin á vanda íslenska fjármálakerfisins væri að minnka efnahagsreikning bankanna. Seðlabankastjóri Bretlands bauð þar fram alla sína aðstoð við að tryggja stuðning síns banka og annarra seðlabanka á alþjóðafjármálamarkaðnum við að setja saman áætlun í þessa veru. Þessu erindi var ekki sinnt í Seðlabankanum og upplýsingar um þetta boð bárust aldrei í viðskiptaráðuneytið og þar var kannski síðasta tækifærið til að lágmarka tjónið svo um munaði. Var tíminn nægur til að bregðast við? Um það getum við ekki fullyrt nú en það voru a.m.k. mikil mistök að þiggja ekki aðstoð seðlabankastjóra Bretlands á þessum örlagaríku tímum og óafsakanlegt að seðlabankastjóri skyldi ekki bera þetta boð inn á borð þeirra ráðherra sem um málið áttu að fjalla.

Virðulegi forseti. Að lokum eru það ákæruatriðin á hendur forsætisráðherra. Þar er m.a. kveðið á um að þáverandi forsætisráðherra hafi sýnt af sér alvarlegu vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslensku fjármálakerfi og ríkissjóði með því að hafa ekki gripið til stjórnvaldsaðgerða til að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Óumdeilt er að mínu viti að það er á verksviði forsætisráðherra sem leiðtoga ríkisstjórnarinnar að tryggja að í svo afdrifaríku máli sé nauðsynlegur viðbúnaður af hálfu stjórnvalda til að reyna að lágmarka tjón af völdum fyrirsjáanlegrar hættu. Forsætisráðherra bjó yfir öllum upplýsingum sem nauðsynlegar voru til að grípa til aðgerða, ráðuneytisstjóri hans stýrði samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað sem stofnaður var árið 2006. Það var réttur vettvangur til að láta vinna faglega og samræmda viðbúnaðaráætlun stjórnvalda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Þar voru fulltrúar forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta auk Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Þessi samráðshópur hafði hins vegar mjög óskilgreint hlutverk og eftirfylgni með störfum hans var klárlega ófullnægjandi, sérstaklega af hálfu forsætisráðherra og reyndar einnig annarra þeirra ráðherra sem áttu fulltrúa í hópnum.

Ég tel sömuleiðis að þáverandi forsætisráðherra geti ekki með sannfærandi hætti vísað ábyrgð á öðrum ákæruatriðum á hendur öðrum ráðherrum. Hann bar ábyrgð á málefnum Seðlabanka Íslands sem hafði það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika í landinu og í ljósi mikilvægis þess fyrir þjóðarbúið að reyna að koma Icesave-reikningum Landsbankans yfir í dótturfélög hefði forsætisráðherra átt að setja það mál í sérstakan forgang innan ríkisstjórnarinnar.

Það er sömuleiðis ótvírætt að það var á verksviði forsætisráðherra samkvæmt stjórnarskránni að halda ríkisstjórnarfundi um þá váboða sem steðjuðu að íslensku fjármálakerfi árin 2007 og 2008.

Málsbætur forsætisráðherra eru hins vegar þær að unnið var að öllum þessum verkefnum á árinu 2008, bankakerfið minnkaði á því ári þótt það dygði hvergi nærri til, unnið var að flutningi Icesave í dótturfélag en það tókst ekki í tíma, árangurinn lét á sér standa og þetta var of lítið og of seint. Það er áberandi að hvergi í ákæruskjölunum er bent á tilteknar aðgerðir sem stjórnvöld hefðu getað gripið til sem hefðu afstýrt þeirri hættu sem steðjaði að fjármálakerfinu umfram þær aðgerðir sem þegar voru í gangi í stjórnkerfinu. Það er veigamikið atriði því að lagt er til að forsætisráðherra, eins og hinir ráðherrarnir þrír reyndar, verði ákærður á grundvelli b-liðar 10. gr. í ráðherraábyrgðarlögunum þar sem segir að hann skuli sekur fundinn ef hann stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu og lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það er afstýrt gat slíkri hættu. Þetta ákvæði er hins vegar óneitanlega nokkuð matskennt eins og reyndar er viðurkennt í greinargerð með frumvarpinu um ráðherraábyrgð árið 1963.

Það er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að eftir 2006 hafi verið orðið of seint að afstýra fjármálahruni. En Geir H. Haarde, sem tók við embætti forsætisráðherra á vormánuðum 2006, hafði verið fjármálaráðherra allar götur frá árinu 1995 og hann átti því að hafa allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að setja í gang og stýra markvissum viðbúnaði af hálfu stjórnvalda í þá veru að draga úr hættu á alvarlegu fjármálaáfalli. Það er mér hrein ráðgáta hvers vegna það var ekki gert. Var það af hugmyndafræðilegum ástæðum, var það markviss stefna Sjálfstæðisflokksins að láta fjármálakerfið afskiptalaust eða var þarna einfaldlega um hirðuleysi að ræða? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað með sannfærandi hætti en afleiðingarnar tala sínu máli.

Virðulegi forseti. Það brást allt stjórnkerfi landsins í aðdraganda bankahrunsins. Stjórnvöld sinntu ekki viðvörunarbjöllum sem tóku að hringja þegar á árinu 2006, alvarleg hagstjórnarmistök um miðjan síðasta áratug kyntu undir ofþenslu og ójafnvægi sem skapaði jarðveg fyrir harkalega lendingu hagkerfisins með tilheyrandi skaða fyrir almenning í landinu. Sjónarhorn stjórnvalda var líka rangt, allt kapp var lagt á að verja bankana þegar skylda ráðamanna var sú að verja almenning fyrir því tjóni sem fyrirsjáanlegt fjármálaáfall gæti valdið.

Þeir ráðherrar sem mesta ábyrgð báru á efnahagsmálum, bankamálum og ríkisfjármálum í tíð umræddrar ríkisstjórnar hafa allir goldið fyrir mistök sín með embættismissi. Það bíður okkar í dag að taka ákvörðun um það hvort þeir skuli einnig sæta ákæru til refsingar fyrir að hafa ekki afstýrt hættu sem eins og fram hefur komið er niðurstaða rannsóknarnefndar að hafi verið orðið of seint að afstýra þegar umræddir ráðherrar tóku við embætti.

Höfum þó í huga að aðstaða þeirra var ekki sú sama, sumir höfðu meiri völd en aðrir, meiri aðgang að upplýsingum, ríkari skyldur að lögum til að taka frumkvæði og grípa til aðgerða. Í einstökum tilvikum hníga sterk rök að því að ákæra eigi tiltekna ráðherra en allir eiga þeir sér málsbætur. Sakarefnin eru matskennd, þau vísa öll til athafnaleysis þar sem ekki er sýnt fram á að tilteknar athafnir hefðu afstýrt hættu eða lágmarkað tjón.

Þegar upp er staðið þurfum við að spyrja okkur: Teljum við meiri líkur en minni á að umræddir ráðherrar, einn eða fleiri, verði sakfelldir á grundvelli þessara ákæruatriða?

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir er afar vandasöm og hún getur sannarlega orðið afdrifarík. Ég hef gagnrýnt hér í ræðustól Alþingis lögin um landsdóm og tel þá leið að láta stjórnmálamenn taka ákvörðun um hvort höfða skuli mál á hendur ráðherrum vera gamaldags, úrelta aðferð til að ná fram réttlæti í okkar samfélagi. Það er mín niðurstaða að það séu betri kostir í boði, að við eigum að láta óháða sérfræðinga um rannsóknir í slíkum málum og sækja þau fyrir venjulegum dómstólum.

Ég tel að fleiri muni verða sama sinnis að lokinni atkvæðagreiðslu hér í dag og ég skora á þingheim að taka til endurskoðunar strax í vetur lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð. En það er framtíðin. Veruleiki okkar hér í dag er sá að við búum við þessi lög og við verðum að nota þau hér í dag. Ég vona að niðurstaðan verði okkur til gæfu, ég vona að dagurinn í dag færi okkur fram á veginn en ekki síður að við berum gæfu til að taka höndum saman í framhaldinu um að skapa heilbrigðari stjórnmálamenningu í þessu landi.