138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir vel flutta, vel samda og vel hugsaða ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar. Ég saknaði eins í henni og það var niðurstaða ræðunnar sem mér fannst eðlilegt að kæmi fram við seinni umræðu málsins eða a.m.k. einhver áfangi að niðurstöðu sem kom ekki fram. Ég er ekki að gera kröfu um að það sé svo.

Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn tveggja spurninga. Fyrri spurningin er í raun og veru sú sem hann nánast spurði sjálfur í upphafi ræðu sinnar. Hann sagði að þetta væri samviskuspurning fyrir hvern og einn þingmann sem hér stæði í dag að stilla sér upp frammi fyrir þessum fjórum vegna þess að í þá fyrndu næðist ekki. Segjum svo að þingmaðurinn telji að sakarefnin séu bæði nægileg og líkleg gagnvart þeim sem um ræðir eða a.m.k. einum þeirra, finnst honum að við þá stöðu að aðrir sleppi sem meiri ábyrgð báru, eða það teljum við, að samviskuspurning hans geti leitt til þess að hann eigi sem alþingismaður og fulltrúi þjóðarinnar að falla frá því að styðja málshöfðun á hendur einum eða fleirum og kveða þar með upp sýknudóm yfir þeim í þessum drætti?