138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:42]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir fyrirspurnir hans, þær eru mikilvægar. Hann spyr í fyrsta lagi hvort ég sé þeirrar skoðunar að ekki hafi verið hægt að grípa til neinna aðgerða og svarið við þeirri spurningu er nei. Ég rakti það reyndar í ræðu minni í umræðu um málsbætur einstakra ráðherra að gripið hefði verið til ákveðinna aðgerða á þessum tíma, aðgerða til að stækka gjaldeyrisvaraforðann. Þeir sem sátu á þinginu á þessum tíma muna eftir að Alþingi veitti heimild til Seðlabanka Íslands um að gera það. Sú heimild var ekki nýtt sem skyldi og það var afdrifaríkt. Farið var í aðgerðir til að minnka efnahagsreikning bankanna. Þeir minnkuðu eilítið á árinu 2008 en fjarri því nægilega mikið. Það var farið í að gera breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð að ráði erlendra sérfræðinga og þær tillögur lágu fyrir haustið 2008 o.s.frv. Þetta var engan veginn nægilegt en þetta voru þær aðgerðir sem gripið var til og ég gagnrýndi það í ræðu minni að mér fyndist þingmannanefndin ekki benda á neinar aðrar aðgerðir sem hefðu dugað til að afstýra hættunni eða eigum við að segja lágmarka tjón þessa fjármálaáfalls fyrir ríkið.

Hv. þingmaður nefndi sömuleiðis stefnu sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 sem eftir á að hyggja hljómar eins og lélegur brandari. Ég er honum sammála um að þessi stefna hefði þurft að koma til endurskoðunar þegar menn fengu skýrar upplýsingar í byrjun árs 2008 um að bankarnir væru hreinlega á brauðfótum en ég fullvissa þingmanninn um að a.m.k. í mínum flokki lágu ekki fyrir neinar heimildir, (Forseti hringir.) neitt mat eða greining á því að fjármálakerfið væri eins illa statt og raun bar vitni þegar ríkisstjórnin var mynduð.