138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að koma að lokum afar erfiðrar umræðu, sem er einnig nýstárleg fyrir Alþingi. Þetta er viðfangsefni sem Alþingi hefur ekki áður haft með höndum, a.m.k. ekki í þau bráðum átta ár sem ég hef setið hér. Þetta er mikilvægt verkefni og það er mikilvægt að við höfum rætt það í nokkuð góðu tómi. Við höfum gefið okkur rúman tíma og það skiptir máli að sem flestir hafi komið sínum sjónarmiðum að, vegna þess að ólík eru þau svo sannarlega.

Í mínum huga er það lykilatriði að hvorki þjóðin né Alþingi mega víkja sér undan því að gera upp hrun fjármálakerfisins, rætur þess, aðdraganda og orsakir þannig að við getum fyrirbyggt að svona lagað endurtaki sig. Þingið hefur lagst í gríðarlega vinnu til þess að svo megi verða með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem var gríðarlega efnismikil og fjallar um afleiðingar þess að þjappa saman völdum og hagsmunum í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu. Það er að mínu mati kjarninn í þeirri skýrslu og lærdómurinn sem við þurfum að draga af henni.

Í framhaldinu hefur þingmannanefndin unnið gríðarlega góðar og mikilvægar tillögur. Við sjáum það líka í skýrslu hennar sem er ítarleg og góð. Ég styð þær tillögur og fagna því að menn hafi náð samstöðu þvert á alla flokka um meginatriðin í því sem Alþingi þarf að fást við til þess að gera upp þetta hrun á næstu missirum. Það munum við fjalla um hér í dag og ég heyri ekki betur en að þingmenn séu almennt sammála um þær tillögur. Ég hefði að vísu verið til í að ganga lengra í ýmsum úttektum, en við þetta verður að standa. Það verður þá að koma fram síðar í annarri tillögugerð.

Virðulegi forseti. Hið eiginlega uppgjör við hrunið er um leið uppgjör við hugmyndafræði og stefnu sem innleidd var og fylgt eftir árum saman og hvers fulltrúar fengu ítrekað endurkjör hingað inn á Alþingi. Spurningin sem ég þarf að svara í dag snýst ekki um það hvort sjálft hrunið verður gert upp eða ekki, heldur hvort ég samkvæmt minni bestu vitund, samvisku og sannfæringu, telji að fram séu komnar upplýsingar sem réttlæti þátttöku mína í því að ákæra þrjá til fjóra einstaklinga fyrir alvarlega saknæmt brot.

Ein af meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem mönnum hefur verið tíðrætt um hér, er að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 ef afstýra hefði átt hruni bankakerfisins. Undir þetta hafa menn tekið, bæði í þingsölum og almennt í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða kærur á grundvelli embættisfærslna árið 2008, enda falla vinnubrögð við einkavæðingu bankanna, stjórnlaus vöxtur þeirra og hagstjórnarmistök fyrri ára utan fyrningarramma laga um ráðherraábyrgð. Því verður með þeirri ákvörðun sem tekin verður í dag af meiri hluta þingsins ekki gert upp við sjálft hrunið eða ástæður þess, hvort sem við samþykkjum eða fellum tillögur um ákærur á hendur þeim sem stóðu vaktina á árinu 2008. Það verður gert með öðrum hætti, það er nokkuð ljóst.

Virðulegi forseti. Tillögur um ákærurnar snúa að því sem að miklu leyti til var ekki gert. Ég hef því spurt mig ítrekað hvað viðkomandi einstaklingar hefðu átt að gera eða gera öðruvísi sem hefði dugað til að lágmarka tjónið án þess að verða þess um leið valdandi að þeir hrintu hruninu sjálfu af stað fyrr en ella. Ítrekað hefur komið fram að flestar mögulegar aðgerðir gátu orkað tvímælis eftir að lánsfjárkreppan var skollin á og allt eins líklegt að við sætum hér og ræddum ákærur fyrir athafnir sem hefðu átt þátt í að koma hruninu af stað.

Þetta, virðulegi forseti, er meginástæða þess að ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það eigi að kæra þá einstaklinga sem hér um ræðir, sem gegndu ráðherraembættum þegar allt var komið í kaldakol og fáir góðir valkostir blöstu við. Í þessu sambandi er mikilvægt að þess sér hvergi stað að lykilstofnanir við varðveislu fjármálastöðugleika hafi undirbúið eða lagt efnislegar tillögur um aðgerðir fyrir ríkisstjórn eða einstaka ráðherra sem við gætum þó vísað í og metið hvort eða hvernig ráðherrarnir brugðust við þeim og fylgdu málunum eftir. Vísanir í óljósar viðvaranir frá Seðlabanka Íslands duga mér ekki sem grundvöllur ákæru, allra síst þegar haft er í huga að Seðlabankinn hefur samkvæmt lögum, eigin samþykktum og samstarfssamningi við Fjármálaeftirlitið skýra frumkvæðis- og verknaðarskyldu til að sinna því lykilhlutverki sínu að varðveita fjármálastöðugleika. Hér er ég ekki aðeins að vísa til eigin tækja bankans sem sjálfstæðs stjórnvalds eða gagnkvæmrar upplýsingaskyldu hans og Fjármálaeftirlitsins, heldur ekki síður ábyrgð hans á tillögugerð til stjórnvalda.

Í sérstakri samþykkt bankastjórnar Seðlabankans frá árinu 2006 er ekki aðeins tekið fram að bankinn eigi að sinna umgjörð og eftirliti, eins og sagt er þar, með leyfi forseta:

„Með því að beita sér fyrir breytingum á reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja og viðskipti á markaði eftir því sem hann telur tilefni til.“

Heldur líka, með leyfi forseta:

„Með því að koma ábendingum bankans um úrbætur og breytingar skýrt á framfæri og fylgja þeim eftir.“

Þáttur Seðlabankans er í raun og veru sérstakur kapítuli í uppgjörinu við hrunið, en ég læt nægja að benda á að hafi stjórn Seðlabankans með sína lagalegu ábyrgð á varðveislu fjármálastöðugleika og rétt til allra upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu ekki séð tilefni til að fylgja eigin vinnureglum um skýrar tillögur til stjórnvalda um úrbætur og fylgja þeim eftir, þá hef ég ekki sannfæringu fyrir því að ákæra eigi þessa umræddu einstaklinga fyrir alvarleg brot á þeim grundvelli.

Virðulegi forseti. Það hefur mikið verið rætt um það að ekkert hafi verið gert. Fjallað hefur verið um það að ríkisstjórnin eða aðilar í henni hafi ekkert gert í aðdraganda hrunsins. Í ágætri ræðu hv. þingmanns Guðmundar Steingrímssonar í gær var farið yfir aðgerðaleysi þingsins. Ég er því ekki sammála vegna þess að gripið var til fjölmargra aðgerða í aðdraganda hrunsins sem bendir skýrt til þess að menn hafi ekki verið með höfuðið í sandinum. Ég get nefnt nokkur atriði í því sambandi.

Til dæmis er alveg skýrt að ein af fyrstu tillögum þáverandi viðskiptaráðherra á haustþingi árið 2007 var að stórefla tekjustofna Fjármálaeftirlitsins um heil 52%. Þessi tillaga var síðan samþykkt hér á Alþingi í desember 2007. Hvers vegna samþykkja menn að hækka tekjustofna Fjármálaeftirlitsins um meira en 50% nema þeir viti að verkefnin fram undan séu ærin? Það er þannig. Þarna voru menn svo sannarlega ekki sofandi, virðulegi forseti, og þingið ekki heldur. Þingið tók þátt í þessum gerningi þó að hann hafi ekki sést á listum sem teknir hafa verð út af þingmönnum síðustu daga.

Í öðru lagi var reynt að draga úr áhættu bankakerfisins með því að veita alþjóðlegum fyrirtækjum hér á landi heimild til að færa reikninga í erlendri mynt og að viðskipti með hlutafé þeirra yrði í erlendri mynt.

Í þriðja lagi beittu stjórnvöld sér markvisst gegn kaupum Kaupþings á hollenska bankanum NIBC, sem hefði stækkað íslenska bankakerfið enn frekar og það umtalsvert. Þarna gengu stjórnvöld meira að segja yfir valdsvið sín, má segja, með því að fara gegn þessu, vegna þess að ekki voru heimildir í lögum til þess. Engu að síður töldu menn á þessum tíma hættuna það mikla ef enn frekari stækkun yrði á bankakerfinu að þeir töldu það þess virði að fara yfir strikið.

Virðulegi forseti. Þarna voru menn heldur ekki sofandi. Þess vegna er ekki sanngjarnt hvernig þessi umræða hefur verið hér. Mér finnst þingmenn sjálfir og ráðherrar frá þessum tíma ekki heldur hafa gert nægjanlega grein fyrir þeim verkum sem ráðist var í.

Í fjórða lagi vil ég líka nefna að Alþingi kom að því hér á vordögum ársins 2008 að samþykkja og veita heimild til verulegrar stækkunar gjaldeyrisvaraforðans. Það gerðist í maí á árinu 2008. Stækkunin hljóðaði upp á heimild til þess að stækka gjaldeyrisvaraforðann um 500 milljarða kr. Eru það merki um að stjórnvöld telji hér allt í lukkunnar velstandi? Alls ekki. Þannig að hér voru skýr merki í aðgerðum þingsins og aðgerðum ríkisstjórnarinnar um að verið væri að grípa til úrræða vegna þess að þrumuský voru á lofti. Það veita engin stjórnvöld slíka heimild til stækkunar á gjaldeyrisvaraforða nema eitthvað sé að.

Virðulegi forseti. Þess vegna er það heldur ekki rétt eins og sagt var í ræðu áðan, að hér hafi menn haldið allan veturinn 2008 einhverjum hlutum leyndum fyrir þjóðinni eða kjósendum sínum. Þingið var að fjalla um þessi mál. Af hverju var þingið að fjalla um 500 milljarða kr. stækkun á gjaldeyrisvaraforðanum? Það var ekki af því bara, það var af því að það var vá fyrir dyrum.

Virðulegi forseti. Það er líka svo að grunnurinn að neyðarlögunum var unninn sumarið 2008 sem viðbragðsáætlun til að lágmarka mögulegt tjón.

Hér hef ég rifjað upp nokkur atriði sem ég sjálf mundi eftir þegar ég var að setja saman þessa punkta. Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið nóg. Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið akkúrat réttu ákvarðanirnar eða akkúrat réttu aðgerðirnar, eftir á litið, en virðulegi forseti, það hefur heldur ekki farið fram skaðamat á því. Þess vegna stendur hér þingmaður sem er ekki sannfærður um að það eigi að ákæra þessa einstaklinga út af hruninu sem varð síðan um haustið.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína að við verðum að gera þetta hrun upp í heild sinni og rætur þess liggja dýpra. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að ákærur á hendur þessum einstaklingum sem fóru með ráðherraembætti eftir að of seint var orðið að afstýra sjálfu hruninu verði til að ýta undir að slíkt heildaruppgjör fari fram. Ég óttast að þar verði bara sett slaufa, svo við verðum að klára þetta.

Virðulegi forseti. Ég get líka sagt að sjálf hafði ég óbeit á þeirri stefnu sem rekin var hér í undanfara bankahrunsins í mörg, mörg ár, þar sem var takmarkalaus dýrkun á markaðnum og algjört afskiptaleysi gagnvart honum. Ég hafði óbeit á þeirri stefnu. Virðulegi forseti. Uppgjör við þá stefnu þarf að fara fram með öðrum hætti en að ákæra þrjá eða fjóra einstaklinga sem sátu þá á ráðherrastól.

Virðulegi forseti. Ég endurtek að ég tel meiri líkur en minni á að við stæðum í þeim sporum sem við stöndum í núna sama hvað þessir einstaklingar hefðu gert á þeim tíma sem þeir voru í ráðherrastól. Mín niðurstaða er þess vegna sú að ég mun styðja og fagna tillögum þingmannanefndarinnar, sameiginlegu tillögunum og þingsályktunum um endurbætur og úttekt á stjórnkerfinu og ég vona að við eigum eftir að gera meira af þeim, en ég mun ekki styðja ákæruliðina á hendur þeim einstaklingum sem stóðu í brúnni þegar hrunið varð. Við höfum ekki öll komist að sömu niðurstöðu, en það hefur verið okkur öllum erfitt. Ég veit að við virðum niðurstöður hver annars og munum í framhaldinu, sama hver niðurstaðan verður í atkvæðagreiðslunni hér á eftir, reyna að standa saman og taka höndum saman í þeim verkefnum sem fram undan eru raunverulega fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er okkar meginverkefni hér í þinginu, en ekki svona umræða.