138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um þingsályktunartillögu sem því miður hefur að einhverju leyti fallið í skuggann af öðrum tillögum í umræðum undanfarinna daga. Í tillögunni felst ákveðinn áfellisdómur yfir verklagi bæði Alþingis og framkvæmdarvalds og er lagt til að Alþingi álykti m.a. að mikilvægt sé að allir horfi með gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis gefur til þess að bæta samfélagið. Þverpólitísk sátt náðist um tillöguna og það eru í sjálfu sér stórtíðindi.