138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Sú þróun sem við settum í gang með því að setja lög um rannsóknarnefnd Alþingis og síðan þingmannanefndina og skýrslur þessara tveggja nefnda hefur kennt þjóðinni hvernig hún eigi að læra af hruninu. Þetta er afskaplega jákvætt. Sú skýrsla sem við höfum hér í höndunum er frábær, hún er frábært starf. Þingsályktunartillagan er ekki alveg eins skýr. Ég vildi hafa hana skýrari en fellst á hana svona eins og hún er vegna þess að mér er lofað því að það verði tekið fyrir í framhaldinu að skerpa á því hvað Alþingi ætlar að gera til framtíðar því að við erum núna að samþykkja tillögu um hvernig við viljum sjá Ísland til framtíðar næstu tíu, tuttugu, þrjátíu ár — Ísland barnanna okkar.