138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:12]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil halda því til haga að sú vinna sem liggur á bak við þessa þingsályktunartillögu er jafnítarleg og faglega unnin, öllum steinum velt, og vinnan við sjálfa skýrslu þingmannanefndarinnar sem við greiddum atkvæði um áðan. Ég vil líka minna, frú forseti, á meginniðurstöður og ályktanir þingmannanefndarinnar á bls. 5 þar sem nefndin fjallar um Alþingi og þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Ég vek líka athygli á því að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um heiðarlegt uppgjör sem er forsenda þess að samfélag okkar geti sameinast á ný og beint kröftum sínum til að byggja upp til framtíðar.