138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samkvæmt 48. gr. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína og hafa undirritað drengskaparheit því til staðfestingar. Ég tel að lög um landsdóm og ráðherraábyrgð standist stjórnarskrá og viðeigandi ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um sérstaka málsmeðferð er varðar ráðherraábyrgð og er það Alþingi eitt sem getur tekið ákvörðun um að kæra ráðherra vegna embættisreksturs þeirra. Nú er löngu ferli að ljúka sem hófst með skipun rannsóknarnefndar Alþingis. Sú vinna hefur nú skilað sér í formi þingsályktunartillagna og eru þær tillögur lögfræðilega vel undirbyggðar. Það er Alþingis að hleypa þessu máli af stað eða stöðva það. Alþingi er ekki dómstóll. Alþingismenn eru ekki dómarar. Landsdómur dæmir í málum um ráðherraábyrgð.

Verði þessar tillögur samþykktar er það skylda sérstaks saksóknara Alþingis að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum, hann undirbýr gagnasöfnun og rannsókn í málinu og gerir tillögu til landsdóms og viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós. Gleymum því ekki.