139. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:14]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 1. október 2010.

Um leið og ég birti þetta er öllum er setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 29. september 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 1. október 2010.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Við stöndum nú á tímamótum, að baki atkvæðagreiðsla sem reyndist þingi og þjóð erfiður hjalli, án fordæma í sögu okkar. Aðeins þrír sólarhringar milli loka þings og upphafs hins næsta, vitnisburður um að tímarnir eru enn með breyttum brag, að viðfangsefnin reyna á sjálfan grundvöll stjórnskipunarinnar, að alþingismenn verða að axla í verki ábyrgð sem áður var bundin fræðilegri umfjöllun.

Þótt umrót setji áfram svip á samfélagið eins og sjá má og heyra við setningu Alþingis og víða sé við vanda að fást, þúsundir landsmanna glími daglega við erfiðleika, missir eigna blasi við mörgum og hundruð þurfi að treysta á matargjafir er engu að síður mikilvægt að hinar svörtustu spár sem mótuðu í kjölfar bankahrunsins umræðuna, bæði hér heima og erlendis, hafa sem betur fer ekki ræst. Atvinnuleysið er minna en í flestum Evrópulöndum þótt það sé enn of hátt á okkar mælikvarða, fjölmargar atvinnugreinar hafa sýnt talsverðan styrk og byggðarlögin vítt og breitt um landið náð að virkja sóknarkraft.

Nýfengin reynsla hefur enn á ný minnt okkur á dýrmætar auðlindir landsins og hafsins í kring, hve ríkulega menntun og hæfni geta veitt viðspyrnu og verið uppspretta nýrra tækifæra, og brýnt að horfa til jákvæðra teikna, láta ekki úrtölur eða átök draga þrótt úr þjóðinni.

Staða Íslands nú er sem betur fer til muna betri en dökkir spádómar báru með sér og það sést líka í áhuga annarra ríkja á að auka samvinnu við Íslendinga. Vinsemd og stuðningur sem við finnum víða gefa þrátt fyrir allt tilefni til bjartsýni.

Í september átti ég viðræður við æðstu ráðamenn Rússlands og Kína sem vilja eindregið efla tengslin við Ísland og hrinda með okkur í framkvæmd fjölmörgum verkefnum í atvinnumálum, orkunýtingu, vísindum og rannsóknum.

Þegar forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, og varaforsetinn, Xi Jinping, tveir af þremur áhrifamestu leiðtogum fjölmennasta ríkis heims sem nú þegar deilir efnahagslegri forustu með Bandaríkjum Norður-Ameríku, setja fram þá ósk að Ísland verði helsta samstarfsríki Kína í nýtingu þarlends jarðhita til orkuframleiðslu, húshitunar, gróðurhúsaræktunar og heilsubótar er í slíkri yfirlýsingu fólgin veigamikil viðurkenning á árangrinum sem Íslendingar hafa náð á undanförnum áratugum, þekkingu okkar og tæknilegri getu.

Þegar forseti Rússlands, Dmitry Medvedev, og forsætisráðherrann, Vladimir Putin, taka í sama streng og nefna sérstaklega verkefni í Kamtsjatka, svæði sem margir íslenskir sérfræðingar þekkja vel, er það enn frekari vísbending um styrkinn sem Ísland býr yfir, um tækifærin sem þjóðin á ef okkur auðnast að bregðast við á réttan hátt.

Heimsóknir tveggja evrópskra þjóðhöfðingja, í sumar og haust, sýna líka velviljann sem við njótum í nágrannalöndum. Fleiri evrópskir forsetar vilja heimsækja Ísland en það er á valdi Alþingis í hve miklum mæli verður hægt að verða við þeim óskum.

Í þjóðhátíðarkveðjum sem okkur bárust frá forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, og utanríkisráðherranum, Hillary Clinton, var einnig að finna vinarhug og áhuga á að þróa samstarf á nýjum sviðum.

Allt sýnir þetta að Ísland á þrátt fyrir áföllin marga góða kosti, sóknarfæri sem brýnt er að nýta. Hrakspár sem heyrðust áður fyrr, að orðspor landsins hefði laskast svo í kjölfar bankahrunsins að við mundum einangrast á alþjóðavelli, hafa sem betur fer ekki ræst. Þvert á móti er hægt að færa ítarleg rök fyrir því að staða Íslands hafi sjaldan, ef nokkru sinni, falið í sér jafnfjölbreytt tækifæri, að lega landsins muni og á komandi árum reynast okkur hinn mesti styrkur.

Í viðræðum við forustumenn Evrópuríkja, Kína, Rússlands og einnig Indlands, sem reyndar hefur líka á þessu ári sent Íslendingum ótvíræð skilaboð um vilja til aukins samstarfs, í samræðum við sérfræðinga og áhrifafólk víða um heim hefur birst sú framtíðarsýn að opnun siglingaleiða um norðurslóðir færi Íslandi nýja og miðlæga stöðu í samgöngukerfi veraldarinnar.

Fyrir fáeinum dögum hvöttu æðstu ráðamenn Rússlands til þess að í samvinnu yrði unnið að áætlunum um byggingu hafna, birgðageymslur, gámaver og einnig skuldbindandi regluverk sem tryggði verndun lífríkis, fiskimiða og umhverfis á norðurslóðum þegar hin mikla skipaumferð mundi hefjast. Svipuð viðhorf komu fram hjá leiðtogum Kína, og Evrópusambandið hefur oft ítrekað þá stefnu að það vilji vera áhrifavaldur í þróun norðurslóða.

Það er því áríðandi að Alþingi og þjóðin öll geri sér glögga grein fyrir þessari nýju stöðu Íslands, að við hefjum víðtækar umræður um hvernig best sé að bregðast við með þjóðarheill að leiðarljósi.

Sagt var fyrr á árum að lega Íslands hefði ráðið sessi þess á tímum kalda stríðsins. Sú framtíðarsýn um norðurslóðir sem önnur ríki hafa nú sett á dagskrá felur í sér enn meira vægi landsins og getur átt þátt í því að skapa Íslendingum, ef rétt er á haldið, traustan grundvöll að farsælli framtíð.

Að auki býr þjóðin að auðlindum og eiginleikum sem sífellt verða verðmætari, kostum sem öðlast æ meira gildi í hagkerfi heimsins.

Við nýtum á sjálfbæran hátt fiskstofna á sama tíma og öðrum þjóðum reynist æ erfiðara að stunda arðsaman og ábyrgan sjávarútveg.

Við eigum hér eitt stærsta forðabúr af fersku vatni sem þekkist í álfunni en vatnsskortur stefnir óðum í að verða helsta vandamál heimsins, ógn sem Alþjóðaefnahagsráðið áréttaði fyrir skömmu.

Við búum að forustu í nýtingu hreinnar orku og æ fleiri ríki leita eftir samstarfi við íslenska sérfræðinga, verkfræðistofur og tæknimenn.

Við eigum fagurt land og víðáttumikið enda eru líkur á að senn komi hingað yfir milljón ferðamenn á hverju ári. Vandi okkar er hvernig tekið verður með sóma og vistvænum hætti á móti fjöldanum sem vill njóta með okkur íslenskrar náttúru.

Við höfum líka kappkostað að mennta nýjar kynslóðir og eigum öfluga sveit af ungu fólki með fjölþætta þjálfun sem nú þegar er í framvarðarsveit á mörgum sviðum.

Hin nýja staða Íslands, samstarfsvilji annarra ríkja, auðlindir landsins og eiginleikar þjóðarinnar ættu að auðvelda okkur öllum, kjörnum fulltrúum, að leggja á farsælan hátt grundvöll að endurreisn efnahagslífsins og öruggri framtíð Íslendinga. En í því brýna verki er samstaðan áríðandi, mikilvægt að glata ekki tækifærum vegna togstreitu eða sundurþykkju.

Til að nýta styrkinn sem Ísland býr yfir og velvildina sem við finnum vítt og breitt um veröldina þarf jákvæð og skapandi framtíðarsýn að setja svip á gangvirki stjórnkerfisins og lykilstofnanir að veita á öruggan hátt forustuna sem þjóðin þarfnast.

Þróað lýðræði með djúpar rætur í arfleifð fyrri alda byggist á öflugum samtökum, flokkum eða hreyfingum sem laga sig að nýjum straumum, axla í krafti víðtæks stuðnings ábyrgðina á örlögum þjóða.

Grundvöllur farsæls stjórnarfars er að slík samtök hafi í senn til að bera stefnufestu og sjálfstraust, geti skapað samstöðuna sem er brýn á erfiðum tímum, láti ekki átök og ágreining koma í veg fyrir lausn vandasamra verkefna. Og slíkt er einkum áríðandi þegar í kjölfar efnahagslegra áfalla er sett á dagskrá endurskoðun á sjálfum grundvelli stjórnskipunarinnar, stoðunum sem lýðræðið hvílir á.

Stjórnarskrá er fyrst og fremst formbirting þess sáttmála sem sameinar þjóðina. Þar er sáttmálinn sjálfur kjarninn, ekki þær reglur sem bundnar eru í einstökum ákvæðum. Verði umfjöllunin nær eingöngu um þær, formið eitt, er hætta á að leiðangurinn missi marks.

Meginstefið í ákallinu um nýja stjórnarskrá hefur verið krafan um aukið lýðræði, um beina þátttöku fólksins í mikilvægum ákvörðunum. Í þeim efnum er lærdómsríkt hve vel tókst til fyrr á þessu ári þegar þjóðin fékk í hendur valdið sem henni ber samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Sú reynsla sýndi að þjóðin er reiðubúin að axla aukna ábyrgð. Hún ætti og að verða okkur hvatning til að þróa aðferðir sem efla hið beina lýðræði, formið þar sem þjóðarviljinn ræður för.

Úrslitin fólu líka í sér áminningu til allra aðila málsins sem þá var á dagskrá, áminningu um að þjóðin verður þegar upp er staðið að vera sátt við niðurstöður.

Þegar nýtt þing tekur nú til starfa svo skömmu eftir að hið fyrra glímdi við grundvallarspurningar um stjórnskipun og uppgjör bankahrunsins blasa enn við þingheimi verkefni sem kalla á yfirvegun og samstarfsvilja, minna okkur öll á þann mikilvæga lærdóm sögunnar að Íslendingum hefur jafnan farnast best þegar vilji þjóðar og þings hefur fallið í sama farveg.

Í ljósi þess lærdóms bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]