139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Við þingmenn þurfum að ræða það hvers vegna reiðin og vonleysið er að taka völdin hjá þjóðinni. Fólk mætir í þúsundatali á Austurvöll og mótmælir ástandinu. Hvaða fólk er þetta? Fólk sem aldrei tók áhættu en getur nú skyndilega ekki staðið í skilum, fólk sem hefur tapað atvinnunni og sér ekki fram á að ný störf verði til á næstunni, fólk sem sér á brott vinum og ættingjum til útlanda, foreldrar sem hafa áhyggjur af afkomu barna sinna og framtíð þeirra, venjulegt fólk sem finnst að það sé órétti beitt.

Er þetta að gerast vegna þess að við höfum ekki virkjað lýðræðið til lausnar á þessum vanda, að við höfum ekki hleypt nýju fólki, nýjum hugmyndum að hér á þinginu? Nei, það getur ekki verið ástæðan því að hér var kosið fyrir rúmu ári síðan og miklar breytingar urðu á skipan þingsins og ný ríkisstjórn tók við. Er þetta þá vegna þess að kreppan er dýpri, viðfangsefnin erfiðari en við sáum fyrir um haustið 2008? Nei, það er ekki svo, samdrátturinn hér á árinu 2009 varð minni en við sáum fyrir.

Góðir landsmenn. Meginskýringin er sú að fólk sér að hægt er að gera svo miklu betur en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er að gera. Á Íslandi starfar ríkisstjórn sem gefur enga von. Hafi hv. þingmenn efasemd um það er rétt að þeir gangi út fyrir þetta hús, út á Austurvöll og ræði við fólkið sem þar stendur. Ríkisstjórn sem krefst þess af forverum sínum að þeir horfist í augu við eigin ábyrgð, jafnvel refsiábyrgð, verður að vera tilbúin að líta í eigin barm og játa á sig þau mistök sem hún hefur sjálf gert.

Þegar ríkisstjórn vinstri flokkanna tók við völdum fylgdu stóryrt loforð um hraða endurreisn efnahagslífsins, skjaldborg um heimilin, ábyrga fjármálastjórn, gegnsæi, ný vinnubrögð og uppbyggingu atvinnutækifæra. Markmiðið var að skapa norrænt velferðarsamfélag. Nú, einu og hálfu ári síðar, er því miður augljóst að þessi loforð voru innihaldslaus með öllu. Það sem meira er, þegar allar aðstæður kölluðu á að hér yrði unnið að samstöðu og samstarfi til lausnar á erfiðum málum fór ríkisstjórnin í þveröfuga átt, í átt til sundurlyndis og í átt til átakastjórnmála. Og þar er ég ekki bara að vísa til hinnar dapurlegu niðurstöðu í landsdómsmálinu frá því í síðustu viku heldur var það t.d. sérstakt loforð stjórnarflokkanna sem nú starfa að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar. Það þótti ástæða til að gefa út sérstakt loforð um að til væru þeir stjórnmálamenn sem væru í framboði til Alþingis sem ekki yrði starfað með.

Ég stend ekki hér með þá fullyrðingu að við sjálfstæðismenn séum handhafar hinnar endanlegu lausnar á sérhverju vandamáli, ég held því ekki fram, en þessari ríkisstjórn er beinlínis illa við hugmyndir sem ekki hafa orðið til á hennar borði. Hér má benda á að allar hugmyndir til lausnar á skuldavanda heimilanna sem komu frá stjórnarandstöðuflokkunum voru afgreiddar sem óraunhæfar og óábyrgar af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, allar lausnir. Við bentum á að nauðsynlegt væri að slá á greiðslubyrði heimilanna og lögðum til að það yrði gert í þrjú ár, að greiðslubyrðin yrði lækkuð í þrjú heil ár um helming gegn því að lánin yrðu lengd. Því var hafnað. Hugmyndir sem fram komu í þinginu um flatan niðurskurð skulda voru slegnar út af borðinu og allar hugmyndir um leiðréttingar á höfuðstól erlendra lána voru jafnframt slegnar út af borðinu.

Svo kemur hér hæstv. forsætisráðherra í kvöld og segist ætla að taka málið föstum tökum og mjög alvarlega. Það er einfaldlega of seint. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru búnir að koma of oft upp í þennan ræðustól og segja að málið verði tekið föstum tökum. Árangurinn hefur algerlega látið á sér standa. Hann er enginn. Hann birtist í þeim mótmælum sem eiga sér stað hér fyrir aftan mig.

Lausnir ríkisstjórnarinnar eru ekkert annað en þunglamalegar kerfislausnir. Hér sagði hæstv. forsætisráðherra rétt áðan: „Allar fjölskyldur í vanda eiga að leita til umboðsmanns skuldara.“ Gott og vel. Í fyrstu áttu þeir að fara í héraðsdóm. Síðan áttu allir að fá tilsjónarmann. Nú eiga þeir að fara til umboðsmanns. Þessar kerfislausnir virka ekki og ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það. Þetta sést t.d. á því að á þeim þremur mánuðum sem umboðsmaður skuldara hefur verið að störfum hafa einungis 500 manns ratað þangað í greiðsluaðlögun, 500 manns hafa fengið greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara á þremur mánuðum. Hingað mæta hins vegar þúsundir á hverjum degi dag eftir dag til að mótmæla ríkisstjórninni, þúsundir manna. Vinstri flokkarnir hafa aldrei skilið að hlutverk okkar stjórnmálamannanna er að haga lögum og reglum með hliðsjón af því hvernig fólk er og hverjar þarfir þess eru, ekki með hliðsjón af því hvernig við viljum að fólk sé. Það eru slíkar lausnir sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á. Þess vegna kemur hæstv. forsætisráðherra hingað og segir fólki hvert það á að fara. Fólk þarf að laga sig að kerfum ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Það þarf almennar einfaldar lausnir þar sem sá forsendubrestur sem hér varð er viðurkenndur. Hann varð ekki bara vegna erlendra lána, meiri hlutinn voru verðtryggð lán í íslenskum krónum. Þar hefur líka orðið forsendubrestur vegna verðbólgunnar. Ríkisstjórnin hefur nú bitið höfuðið af skömminni með því að semja um það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að frekari frystingar lána verði ekki heimilaðar og að ekki verði farið í almennar aðgerðir fyrir skuldug heimili. Þessi loforð forsætis- og fjármálaráðherra, sem þau hafa nú gefið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eru ekki bara vonbrigði fyrir fólkið í landinu, þetta eru bein svik.

Hver trúir því þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hingað upp núna eftir að hafa skrifað undir eitthvað allt annað við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að fjölskyldurnar fái frekari fresti til að vinna í sínum málum? Hver trúir því þegar fyrir liggur opinber undirritun um hið gagnstæða?

Góðir landsmenn. Það er ekki einungis í málefnum heimilanna sem núverandi ríkisstjórn hefur valið ranga leið. Þegar semja þurfti um íslenska hagsmuni og verja þá fyrir kröfum erlendra ríkja í Icesave-málinu gekk ríkisstjórnin í lið með hinum erlendu ríkjum. Það er með mestu ólíkindum í þingsögunni að okkur í þessum sal — af því að hér hefur verið rætt um samstöðu og samstarf — skyldi ekki takast að verja það sem voru hreinir íslenskir hagsmunir í því máli en meira að segja í því máli tókst ríkisstjórninni jafnilla upp og í öðrum málum.

Nýja ríkisstjórnin byrjaði á því fyrir kosningarnar 2009, um leið og hún komst til valda, að afturkalla aðhalds- og sparnaðaraðgerðir í heilbrigðiskerfinu sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði kynnt til sögunnar. Þannig voru skammtímavinsældir keyptar með því að slá vandanum á frest. Það er bein afleiðing af þessari stefnu, af þessum aðgerðum fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem nú er orðinn hæstv. dómsmálaráðherra, hversu niðurskurðurinn á heilbrigðissviðinu er harkalegur í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram hér fyrir helgi.

Enn eitt dæmið úr mistakasögu þessarar ríkisstjórnar er stöðugleikasáttmálinn. Hefði ríkið staðið við það sem skrifað var undir væru fyrirtæki og einstaklingar ekki í jafnslæmri stöðu og raun ber vitni. En jafnvel sá mikilvægi sáttmáli fékk að fjúka vegna aðgerða- og áhugaleysis með þeim afleiðingum að nú treystir enginn ríkisstjórninni lengur, hvorki atvinnurekendur né verkalýðshreyfingin. Það er beinlínis sorglegt að fylgjast með aðgerðum eða öllu heldur aðgerðaleysi vinstri flokkanna í ríkisfjármálum. Þar skal öllu bjargað með sömu aðferðinni — skattahækkunum. Afleiðingar af þessu hafa ekki látið á sér standa. Landsframleiðslan dregst saman, kaupmáttur fellur og einkaneyslan með, fjárfesting er því sem næst horfin og það skilur enginn á hverju áætlanir um 3% hagvöxt á næsta ári byggja.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins sem fram komu hér fyrir helgi eru nú þegar brostnar. Í þessu ljósi verður ræða hæstv. forsætisráðherra ekki kölluð neinu öðru nafni en veruleikafirring. Þetta er veruleikaflótti. Það sem hún skilur ekki er að það sem fjárfestar óttast mest er sjálf ríkisstjórnin sem hún stýrir. Þar liggur mesta áhættan, í hinni pólitísku áhættu sem upp er komin vegna stefnu- og aðgerðaleysis.

Mein ríkisbúskaparins verða ekki læknuð með hærri skattbyrði, þau verða ekki læknuð með því að leggja meiri og frekari byrðar á fólkið í landinu. Ríkisstjórnin virðist samt sem áður ætla að halda áfram á þeirri braut. Enn á að hækka skatta á fyrirtæki, skatta á sparnað, gjöld á vörur sem leiða til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Í nýju fjárlagafrumvarpi er seilst enn dýpra í vasa þeirra sem síst skyldi, barnafjölskyldna, atvinnulausra og lífeyrisþega.

Góðir tilheyrendur. Það er rétt hjá fjármálaráðherra að við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið. En þótt draga þurfi úr útgjöldum er augljóst að það verður aldrei bundinn endi á kreppuna með niðurskurði og hvað þá með skattahækkunum. Höfuðáherslu verður að leggja á að hagkerfið taki við sér og fari að vaxa. Við þurfum að vaxa út úr vandanum, vaxa inn í nýja framtíð. Verkefnið sem ríkisstjórnin ætti að vera að vinna að er að vinna með öllum sínum gerðum, öllum sínum áhrifum að uppbyggingu atvinnulífsins. Það er með hreinum ólíkindum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli hvað eftir annað stöðva atvinnuskapandi verkefni, annaðhvort með beinum ráðherraákvörðunum eða svo miklu fálæti að fjárfestar gefast upp á biðinni. Sama hvert litið er, innlendar þjónustugreinar og iðnaður eiga undir högg að sækja, minni og meðalstór fyrirtæki eiga í daglegri baráttu fyrir lífi sínu. Endurreisn íslensks efnahagslífs byggir á því að þessum fyrirtækjum verði skapaðar lífvænlegar aðstæður til að auka framleiðni, til að minnka atvinnuleysi og til að koma í gang verðmætasköpun sem eykur hagvöxt. Við eigum allt undir því að þetta fari að gerast á Íslandi.

Lykillinn að því að lífskjör Íslendinga taki að batna er að skapa störf til að atvinnulífið komist á skrið og fólkið í landinu fái vinnu. Til þess að svo verði þarf að sjá til þess að þau verkefni sem okkur bjóðast í dag, þau atvinnuskapandi og verðmætaskapandi tækifæri sem ótvírætt eru á borðinu verði nýtt. Við verðum að sjá til þess. Ríkisstjórn sem ekki skilur slíka grundvallarþörf verður að víkja.

Góðir Íslendingar. Það verður því miður æ sorglegra að fylgjast með örvæntingarfullum tilraunum hæstv. forsætisráðherra til að bjarga rústum ríkisstjórnarsamstarfsins með baktjaldamakki og kattasmölun. Það er kominn tími til að vinstri stjórnin átti sig á því að hennar tími er liðinn. Þau hafa fengið tíma, þau hafa fengið umboð og þau hafa fengið tækifæri og þeim hefur mistekist.

Íslenska þjóðin þarf nú sterka forustu, ríkisstjórn sem hefur kjark til að taka ákvarðanir, byggja upp atvinnulífið og lækka skattbyrði og aðrar byrðar á íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Við þurfum ríkisstjórn sem er samstarfshæf við hagsmunasamtök, hafnar ekki hugmyndum fyrir þær sakir einar að þær stafi frá stjórnarandstöðunni heldur getur unnið að lausnum sem horfa til hagsældar fyrir þjóðina á erfiðum tímum í samstarfi við stjórnarandstöðu, í samstarfi við aðila í þessu öfluga samfélagi.

Tækifærin eru sannarlega til staðar. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að nýta þau tækifæri, tilbúinn til samstarfs við ábyrga aðila, tilbúinn að hefja uppbyggingu efnahagslífsins til bjartrar framtíðar fyrir fólkið í landinu, framtíðar sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur getur ekki boðið upp á og verður því að víkja.