139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Góðir Íslendingar. Haustþingið hefst undir dynjandi tunnuslætti, hrópum og köllum. Hér fyrir framan Alþingishúsið er stór hópur Íslendinga sem mótmælir því að ekki sér til sólar í efnahagslífi þjóðarinnar, mótmælir því að hér sé við völd kreppustjórn í öllum hugsanlegum skilningi þess orðs, hvort sem litið er til ástandsins eða hugmynda og forustuleysis. Almenningur hefur fyrir löngu gefist upp á hinni norrænu velferðarstjórn.

Ástæða er til að ætla að fram undan séu mikil átök í samfélaginu og þá er ég ekki aðeins að tala um átök á vinnumarkaði, vegna þess að semja verður um kaup og kjör í því andrúmslofti sem hér er. Ég á auðvitað við það vonleysi sem eykst nú dag frá degi og snýr að hag hverrar fjölskyldu og framtíð fyrirtækja sem berjast í bökkum. Því miður er það þannig að þúsundir íslenskra fjölskyldna hafa enga von um að núverandi ríkisstjórn leysi vanda þeirra. Því miður berjast hundruð fyrirtækja, sem rekin hafa verið af skynsemi og fyrirhyggju, í bökkum.

Hæstv. forseti. Það vantar forustu í þetta land. Það vantar forustu til að leiða saman ólíka hópa og draga vagninn áfram inn í framtíðina. Það vantar leiðsögn sem markar stefnu til framtíðar. Hér situr ríkisstjórn sundurlyndis og tortryggni. Við Íslendingar verðum að losa okkur við ríkisstjórn sem neitar að viðurkenna að henni hefur mistekist á öllum sviðum að skapa aðstæður fyrir þjóðina að rísa upp úr vandanum.

Það er skylda okkar að koma hér á ríkisstjórn sem hefur markvissa uppbyggingu atvinnulífsins á stefnuskrá sinni, sannfærir innlenda og erlenda fjárfesta að þrátt fyrir allt sé Ísland land tækifæranna. Við þurfum ríkisstjórn sem trúir því að Ísland búi yfir mestu auðæfum í heimi, okkur sjálfum, Íslendingum, með allan sinn kraft, þor, dugnað og menntun.

Þegar ég heyri mótmælin í kvöld get ég ekki annað en hugleitt hvort og þá hvernig við sem hér sitjum urðum viðskila við almenning. Ég hlýt að spyrja mig að því hvort ég sé svo heillum horfin gagnvart fólkinu í landinu að ég átti mig ekki á ástæðum þess að hér fyrir utan standa þúsundir manna og mótmæla. Ég verð að spyrja alla þingmenn þessarar sömu spurningar. Ég kemst aðeins að einni niðurstöðu: Það hefur orðið trúnaðarbrestur á milli þings og þjóðar. Það er skylda okkar að öðlast trúnað á fólkinu í landinu. Okkur má ekki mistakast. Það eru gríðarleg og mikilvæg verkefni sem bíða okkar. Við þurfum að marka stefnu til framtíðar. Framtíð okkar liggur í því að nýta auðlindir til lands og sjávar.

Við megum ekki við því að fjölskyldur flytjist héðan. Möguleikarnir liggja í því að búa okkar glæsilega unga fólki tækifæri hér á landi. Tækifæri okkar liggur í því að standa saman en ekki sundra.

Það hefur komið á daginn svo ekki verður um villst að forustuhæfileikar felast ekki í því að hafa setið áratugum saman á Alþingi. Kannski hafa einhverjir vonast til þess vorið 2009. Vonbrigði þeirra hljóta að vera mikil.

Virðulegi forseti. Hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp í nafni ríkisstjórnar og stjórnarliða hér á Alþingi sem gerir ráð fyrir 3,4% hagvexti sem hann veit að stenst enga skoðun? Hvern er verið að blekkja? Þjóðina og þingið? Það er hið augljósa svar. Seðlabankinn dró þegar í Peningamálum í síðastliðnum ágústmánuði verulega úr þessum hagvaxtarspám, en hæstv. ríkisstjórn virðist týna öllu sem þaðan kemur.

Góðir landsmenn. Afleiðingin er sú að staða þjóðarbúsins næstu árin er óþekkt. Fjárlagafrumvarpið inniheldur tilbúnar tölur á blaði. Það hryggilega er að á bak við hagtölur, talnagögn og prósentur, er fólk, venjulegir Íslendingar sem hrópa á úrræði og hjálp. Það er löngu tímabært að hlusta á það sem fólk hefur að segja. Það þarf að fjárfesta í íslenskum heimilum með því að koma þeim til hjálpar núna.

Hæstv. forseti. Þjóðfélag okkar þarf á forustu að halda. Fólk þarf að eiga von um að hér sé hægt að byggja upp mannsæmandi líf. Við lifum á óvissutímum. Við búum við ótta, vonleysi og vonbrigði í þjóðfélaginu. Nú er ekki tími fyrir innantómt þvaður. Tími aðgerða er löngu runninn upp.

Góðir Íslendingar. Tími kreppustjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er liðinn.