139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Gott kvöld, góðir landsmenn. Mótmælin sem standa nú yfir á Austurvelli og við þingfestinguna sl. föstudag eru engin venjuleg mótmæli. Þau snúast ekki bara um að núverandi ríkisstjórn hefur skilið stóran hluta þjóðarinnar eftir í skuldafeni heldur líka að lítið sem ekkert hefur verið gert til að breyta þeim vinnubrögðum sem einkennt hafa stjórnmálin um langa hríð. Hróp um vanhæfa ríkisstjórn í mótmælunum sem áttu sér stað í janúar 2009 voru ekki ákall eða beiðni um vanhæfari ríkisstjórn en sat þegar hrunið varð. Þó virðist sem sumir hafi kosið að skilja slagorðið þannig.

Nú kyrja mótmælendur einnig: Vanhæft Alþingi. Þau mótmæli beinast að öllum þingmönnum, sama í hvaða flokki þeir standa. Það er staðreynd að þrátt fyrir fögur fyrirheit og vonir um breytt vinnubrögð hefur framkvæmdarvaldið enn ægivald yfir sölum Alþingis. Að sjálfsögðu á Alþingi ekki að láta valta yfir sig en forsetar Alþingis hafa því miður ekki reynst annað en framlenging af ráðherraræðinu.

Í setningarræðu sinni bað forseti Alþingis ráðherra að virða starfsáætlun Alþingis og leggja fram mál í tíma. Hver stjórnar því annar en æðsti yfirmaður Alþingis hvort starfsáætlunin stenst eða ekki?

En það eru ekki aðeins ríkisstjórnin og Alþingi sem hafa fengið á baukinn. Fjórflokkarnir svokölluðu fengu skell í síðustu sveitarstjórnarkosningum og kannski engin furða. Við höfum séð flokksræðinu troðið ofan í þá þingmenn sem vilja fylgja eigin sannfæringu og virða það heit sem þeir gáfu þegar þeir settust á þing. Við sjáum einnig ólýðræðisleg vinnubrögð við val á sæti á lista flokkanna. Fámennir hópar og talsmenn þröngra hagsmuna beita öllum tiltækum ráðum við að koma sínu fólki að og skiptir þá engu hvort viðkomandi hafi gert mistök, mistök sem jafnvel hafa átt stóran þátt í því að hrun varð á Íslandi eða afglöp sem hafa reynst tilefni sakarrannsóknar.

Persónukjör eða kosningar þar sem valið er fært til hins almenna borgara er eina leiðin til að leiðrétta það flokksræði og þann lýðræðishalla sem viðgengist hefur hér á landi. Skýrar leikreglur þar sem réttindi minnihlutahópa eru tryggð, reglur sem tryggja að mótmæli og óeirðir verða ekki daglegt brauð á Íslandi.

Ég ákvað að bjóða mig fram til setu á Alþingi undir merkjum Framsóknarflokksins. Hugmyndir mínar um samvinnu, hófsama miðjustefnu og að hagsmunir fjölskyldunnar skyldu hafðir í fyrirrúmi fundu sér helst rætur í þeim flokki. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því að löng seta í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum hafði rýrt trúverðugleika flokksins. Viðhöfð höfðu verið vinnubrögð sem enginn venjulegur framsóknarmaður gat sætt sig við. Því vildi ég breyta. Það hefur tekist að vissu leyti en meira þarf samt til.

Ég lýsi hér með yfir stríði gegn spillingu, flokkseigendafélögum og óheiðarlegum vinnubrögðum hvar sem þau fyrirfinnast í þjóðfélaginu. Ég hvet þingmenn í hvaða flokki sem er og alla þá landsmenn sem vilja búa í landi þar sem heiðarleiki og sanngirni ráða ríkjum að taka þátt í þeirri baráttu. Höfum samt eitt á hreinu. Sigur í þeirri baráttu mun aðeins vinnast með tveimur aðferðum, rökræðu og þekkingu. Málefnaleg umræða verður að fara fram innan veggja Alþingis þar sem ofuráhersla hefur verið á kappræðuna. Umræðan úti í þjóðfélaginu verður líka að vera upplýst og sanngjörn. Fjölmiðlar verða að taka sig á, sem og bloggarar landsins. Fjórða valdið ber mikla ábyrgð og verður að standa undir henni. Enginn stjórnmálaflokkur ætti að eiga sinn fjölmiðil.

Við sem höfum haft okkur hvað mest í frammi í stjórnarandstöðunni höfum á stundum verið sökuð um samstöðuleysi. Mig langar af því tilefni að vitna í orð ágæts þingmanns meiri hlutans frá því í eldhúsdagskrárumræðunum sl. vor.

Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er auðvelt fyrir okkur sem erum í stjórnarmeirihlutanum að tala um þörfina á samstöðu og hófstilltri framgöngu í opinberri umræðu, enda gagnast það fyrst og fremst ríkjandi stjórnvöldum, meiri hlutanum, ef minni hlutinn er til friðs. Hlutverk minni hlutans er að vera gagnrýninn á hugmyndir stjórnvalda og veita þeim aðhald.“

Hann sagði einnig:

„Meiri hlutinn getur ekki bara farið sínu fram og krafist þess að minni hlutinn sé til friðs vegna þess að samstaðan sé nauðsyn, svoleiðis virka hlutirnir ekki.“

Þetta er vel orðuð og sanngjörn afstaða.

Ég mun í vetur veita meiri hlutanum aðhald og leggja fram tillögur í samræmi við hugsjónir mínar og stefnu. Ég mun leggja mig allan fram nú sem áður í baráttunni fyrir því að ekki verði gengið nærri heimilum landsins og að hagur ungs barnafólks verði bættur. Ég mun leggja fram tillögur um að allir sitji við sama borð þegar kemur að afskriftum í bönkunum, eitt skal yfir alla ganga, og að sett verði bann við hvers lags mismunun. Ég mun líka beita mér fyrir því að ekki verði höggvið nær landsbyggðinni en þegar hefur verið gert. Tillögur um niðurskurð á sjúkrahúsum víða á Norður- og Austurlandi, sér í lagi á Húsavík, eru því miður sorglegt dæmi um stefnuleysi núverandi stjórnvalda. Við megum heldur ekki undir nokkrum kringumstæðum gefa frá okkur yfirráðin yfir auðlindum þjóðarinnar, landbúnaði og sjávarútvegi. Þessar undirstöður eru til marks um sjálfstæði okkar og lykillinn að framtíðinni. Aðeins þannig náum við að styrkja undirstöður samfélagsins og hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda, styrkja fjölskylduna og búa vel í haginn fyrir börnin okkar.

Ég vil að lokum óska íbúum á norðanverðum Tröllaskaga sem og á norðanverðum Vestfjörðum til hamingju með miklar samgöngubætur og þau jarðgöng sem nýverið er búið að opna.

Kæru landsmenn. Höfum það ávallt hugfast að styrkur okkar liggur í samhentri þjóð sem lifir góðu lífi í sjálfstæðu landi.