139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Gott kvöld. Það hriktir í stoðum þjóðfélagsins. Þúsundir mótmæltu við þingsetningu og enn fleiri eru fyrir utan núna og á Alþingi er sundurþykkjan meiri en nokkru sinni fyrr. Við, íslenska þjóðin, erum enn í sárum eftir hrunið.

Stjórnvöld hafa unnið hörðum höndum að því að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma efnahagslífinu aftur í horf. En það tekur tíma. Og til að segja hlutina eins og þeir eru, þá verður efnahagsleg tilvera okkar líklegast aldrei aftur eins og hún var þegar við héldum að hún væri best og mest, ekki á mínu æviskeiði a.m.k. en kannski þegar lengra líður frá. Þótt svo verði ekki erum við samt rík þjóð.

Skuldavandi heimilanna er bráðastur og enn er hann óleystur. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áðan að fimm ráðherrar hefðu verið settir til að fara yfir þau erfiðu mál. Á síðasta vetri og síðast í vor, gerðum við hér ýmislegt sem ætlað var til að leysa úr þessum vanda. Það virðist ekki hafa tekist sem skyldi. Nú skiptir máli að ráðherrarnir fimm spyrji einfaldra spurninga og gefi svör við þeim á mannamáli. Ég nefni dæmi: Skila lögin þeim árangri sem til var ætlast? Tókum við rangar ákvarðanir? Hefðu aðrar ákvarðanir verið betri? Er kannski ekki hægt að gera meira í erfiðum kringumstæðum? Við verðum að fá botn í þetta. Ef fara þarf aðrar leiðir en hingað til verðum við að gera það. Til þess verðum við að hafa pólitískan kjark.

Sumt er illskiljanlegt. Sumt sem heyrist af aðgerðum bankanna er óskiljanlegt. Kannski er ekkert óeðlilegt við að afskrifa skuldir frá Skinney–Þinganesi upp á 2,6 milljarða kr. eins og Landsbankinn gerði. Hefur Skinney–Þinganes þá verið gert upp sem fyrirtæki, gert gjaldþrota og allar eignir þess seldar? Landsbankinn er í ríkiseigu, þess vegna eigum við að geta spurt slíkra spurninga og fengið svör við þeim

Það er nauðsynlegt að hlutir af þessu tagi séu útskýrðir. Það er alltaf nauðsynlegt en sérstaklega núna í því andrúmslofti sem ríkir. Vantraustið á stjórnmálamönnum og þeim sem nálægt valdastofnunum koma er algjört. Til að endurvinna það traust þarf allt að vera uppi á borðum. Það á ekki að fara í manngreinarálit. Sérlausnir eiga einungis að vera til fyrir þá sem verst eru staddir.

Arðsemi bankastofnana vekur athygli. Arðsemi Arion var 17,7% á fyrra helmingi þessa árs og Íslandsbanka 17,1% og hagnaður Landsbankans var 19%. Einhvern veginn rímar þetta ekki í huga mér við að ógerlegt sé að leysa úr skuldavanda fólks og fyrirtækja.

Er afkoma fyrirtækja almennt svona góð eða gildir þetta bara um bankana? Afkoma bankanna núna er svipuð því sem hún var fyrir hrun. Og ég spyr: Eru bankarnir í svo vernduðu umhverfi að samdrátturinn sem bitnar hvað harðast á almenningi kemur bönkunum ekki við?

Ríkið á Landsbankann. Auðvitað viljum við ekki pólitísk afskipti af rekstri þess banka né annarra en stjórnendur bankanna verða að skilja veruleikann í kringum þá. Hagfræðikenningar segja að stjórnendur fyrirtækja eigi að hámarka ágóðann en er ágóðinn alltaf bara mældur í krónum og aurum? Er það hagsæld bankanna til langs tíma að liggja eins og ormar á gulli og halda fyrirtækjum og heimilum í spennitreyju, nýta ekki það fjármagn sem þó er til í landinu til að blása lífi í fyrirtæki og atvinnulífið, sem er forsenda þess að þjóðlífið nái að dafna, forsenda þess að við náum endum saman og getum varið þau lífsgæði sem við þó enn höfum?

Auðvitað eiga pólitíkusar ekki að skipta sér af rekstrinum. En löggjafinn, við hér, setur reglurnar og ég velti fyrir mér hvort reglurnar um bankana séu þannig að þeir geti makað krókinn um of.

Nú fer í hönd umræða um fjárlagafrumvarpið, niðurskurðarfumvarpið. Ég vil heita á okkur öll hér inni að við tökum þá umræðu af alvöru og hlustum til tilbreytingar við og við hvert á annað en tölum ekki hvert annað eða þjóðina í hel. Við höfum verkefni að vinna. Það er erfitt verkefni en ef við leggjumst öll á árar er það mögulegt. — Góðar stundir.