139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Á skilti hérna úti stendur: Verjum heimilin. Á sama tíma sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðu sinni áðan orðrétt: Við höfum á undraskömmum tíma náð tökum á efnahagsvandanum.

Á öðru skilti hérna úti stendur: Kúba norðursins. Á sama tíma segir forsætisráðherra orðrétt að við höfum náð markverðum árangri sem vakið hefur athygli á alþjóðavettvangi.

Það eru liðin tæp tvö ár frá því að núverandi stjórnarflokkar tóku við og það er langur tími í lífi fólks. Og enn bíður fólk eftir því að mál þeirra leysist. Árangurinn er lítill sem enginn og það ber allt að sama brunni í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Þar segir enn fremur orðrétt að stjórnvöld hafi lagt grunn að stöðugleika á vinnumarkaði í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Það vita allir og ekki síst aðilar vinnumarkaðarins sjálfir að stöðugleikasáttmálinn var gjörsamlega virtur að vettugi af stjórnvöldum.

Forsætisráðherra sagði líka að störfum hefði fjölgað á Íslandi um 2.500 á síðasta ári. Staðreyndirnar hrópa hið öndverða. Fólki er að fækka á vinnumarkaði. Frá ágúst 2009 til ágúst 2010 dróst mannafli á vinnumarkaði saman um rúmlega 7.400 manns. Ef fjöldinn hefði verið sá sami væri atvinnuleysi að mælast í kringum 11% núna í stað 7,3% eins og nú mælist.

Þetta eru sláandi tölur en það sorglega er að þetta þarf ekki að vera svona. Ég get fært ráðherranum nákvæma útlistun á þeim 2.710 störfum sem hefðu nú þegar skapast á byggingartíma verkefnanna sem tafist hafa á Suðurnesjunum eingöngu, þ.e. álvers í Helguvík, kísilvers, sérhæfðs einkasjúkrahúss, gagnavers og ECA-flugverkefnisins.

Hæstv. fjármálaráðherra kallaði það tilgangslaust hnútukast að ræða um þau verkefni en ég vil leyfa mér að mótmæla því. Árstekjur hins opinbera hefðu verið um 16 milljarðar kr. á uppbyggingartímanum næstu tvö til þrjú árin. Fyrir 16 milljarða mætti reka allar heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni, sem nú stendur til að nærri því leggja niður með einum eða öðrum hætti, og meira til.

Hvert skyldi hæstv. forsætisráðherra ráðleggja þeim hundruðum einstaklinga sem starfa t.d. við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Vestfjarða, Suðurnesja, Suðurlands, Vestmannaeyja, Hornafjarðar, og sjá fram á uppsagnir á næstu mánuðum, að leita fyrir sér um atvinnu? Og hvernig skyldu þessar fyrirhuguðu uppsagnir, sem lenda væntanlega mikið til á konum á landsbyggðinni, falla að kynjuðu hagstjórninni hjá velferðarstjórninni? Að ekki sé minnst á öryggi og velferð íbúanna á þessum svæðum sem sækja þurfa læknisþjónustu um langan veg. Það er þetta sem við sjálfstæðismenn erum að tala um þegar við segjum að við eigum að vinna okkur út úr kreppunni, skapa hagvöxt, ekki falla í ömurlegan vítahring skattahækkana og ómarkviss niðurskurðar.

Ég hitti iðnaðarmann úr Reykjanesbæ á ljósanótt. Hann er fluttur til Noregs og vinnur þar enda enga vinnu að fá í hans fagi hér heima. Hann er ekki á leiðinni heim en fjölskyldan hans er hins vegar enn þá heima og þau stefna að því að búa í tveimur löndum um óákveðinn tíma. Börnin ganga hér í skóla og fjölskyldan reynir að láta lífið hafa sinn vanagang. Ég þekki fjölmarga aðra sem eru í sömu stöðu.

Nú er mikið rætt um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu. Hversu mörg sveitarfélög þola það til lengdar að útsvarstekjurnar hverfi úr landi en þjónustan sem sveitarfélögunum er skylt að veita er skilin eftir? Að ekki sé talað um félagsleg áhrif þess að fjölskyldur séu sundraðar um langa hríð og að börn njóti ekki samvista foreldra sinna. Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast, hinar vinnandi hendur fara úr landi en þjónustan með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið stendur eftir. Það sjá allir að það gengur ekki upp.

Frú forseti. Íslenskt samfélag þarf ekki á 216 mála þingmálaskrá að halda frá ríkisstjórn Íslands. Íslenskt samfélag þarf forgangsröðun og lausnir við þeim bráðavanda sem við er að etja, fólkið þarf vinnu og þak yfir höfuðið. Hitt má bíða. Komum okkur að verki.