139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:48]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nú þegar nýtt þing kemur saman er meiri þörf en nokkru sinni fyrr að þingheimur allur líti í kringum sig og horfi út fyrir veggi þessa húss, til þess hverra fulltrúar við erum. Horfum til þess að fólkið sem misst hefur heimili sín, fólkið sem er að missa heimili sín og fólkið sem óttast að svo geti farið, er fólkið sem kaus okkur og treysti okkur til verka.

Við þurfum að spyrja okkur: Hvað getum við gert til að svara kalli þess nú? Við þurfum að spyrja okkur: Er eitthvað sem við gerum eða höfum ekki gert sem gerir það að verkum að fólk hefur litla tiltrú á þeirri starfsemi sem hér fer fram? Við þurfum að spyrja okkur: Erum það við sem kveikjum elda og reiði í hugum fólks og jafnvel hér fyrir utan? Og ef svo er, er þá ekki tímabært að við snúum okkur að því að byggja upp það traust sem þarf að vera á störfum þingsins svo við getum í sameiningu unnið þau verkefni sem þarf til að svara kalli almennings í þessu landi?

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að átta okkur á því að hvaðan sem við komum og úr hvaða flokki eða hreyfingu við erum að við erum öll þingmenn allrar þjóðarinnar. Bóndi úr Dölunum er jafnt þingmaður bankastarfsmanns í Reykjavík og álversstarfsmanns á Austurlandi sem þeirra sem deila með honum kjörum fyrir vestan. Og prófessor úr Reykjavík er jafnt þingmaður sjómannsins í Bolungarvík og kennarans í Grindavík sem nágranna sinna. Aukinheldur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá Kópavogi líka þingmaður samfylkingarfólks í Hafnarfirði og þingmaður VG utan af landi er líka þingmaður framsóknarmanna í Reykjavík.

Þetta þýðir ekki að við þurfum öll að vera sammála um allt en við eigum að geta tekist á á málefnalegan hátt og með rökum bæði innan flokka og utan og á milli flokka. Ég ætlast ekki til þess að neinn maður sé mér sammála í öllum málum en ég vil fá tækifæri til að koma að mínum rökum. Ég vil hlusta á röksemdir annarra en ég vil ekki hlusta á persónulegar árásir og sleggjudóma.

Ég hef megnið af minni starfsævi starfað á öðrum vettvangi en hinum pólitíska. Þar sem ég hef unnið mest hefur grundvallarstefið verið teymisvinna. Á spítaladeild geta hlutirnir aldrei gengið eðlilega fyrir sig ef fólk vinnur ekki saman. Meðlimir teymisins leggja hver sitt af mörkum og niðurstaðan verður betri fyrir vikið. Þannig á þetta líka að vera á Alþingi.

Ég treysti mér til að fullyrða að vinstri græn fá ekki alltaf allar bestu hugmyndirnar og þótt svo væri koma þær alls ekki allar frá þingmönnum flokksins. Á sama hátt koma bestu hugmyndir sjálfstæðismanna ekki allar úr Valhöll en þaðan koma engu að síður líka góðar hugmyndir.

Ég er sjaldnar sammála þingmönnum annarra flokka en Vinstri grænna en ég efast ekki um að hjá þingmönnum allra flokka er einlægur vilji til að gera vel. Okkar sameiginlega markmið er að skapa á Íslandi samfélag sem við öll getum og viljum búa í, samfélag sem aðrar þjóðir geta litið til. Við eigum að eiga sameiginlegan bandamann í þjóðinni og hagsmunum hennar.

Það er mitt frelsi að Hreyfingin hafi menn á þingi. Það er hluti af frelsi hægri manna að nú fari vinstri menn með framkvæmdarvaldið í landinu. Og það er hluti af frelsi okkar allra að fólk hafi í frammi mótmæli.

Góðir landsmenn. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Ari fróði Þorgilsson sagði í árdaga í Landnámabók að hafa skyldi það sem sannara reyndist. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis segir okkur að við þurfum að komast upp úr skotgröfum gamaldags hugsunarháttar. Hún segir okkur að við eigum að þora að skipta um skoðun og stefnu. Hún segir okkur að við eigum að vinna sameiginlega að velferð þjóðarinnar. Er ekki tímabært að hlusta á þessi skilaboð?