139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér er það vel kunnugt, m.a. í gegnum fjölda pósta og skilaboða frá Húsavík, að það er þungbært fyrir þá að fá þær tillögur sem fram koma með frumvarpinu. Það er nú ekki svo þegar það er skoðað og greint að niðurskurður í þessu frumvarpi beinist sérstaklega að landsbyggðinni. Þvert á móti er nú innan heilbrigðiskerfisins um umtalsverðan niðurskurð að ræða bæði á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu. Þannig er St. Jósefsspítala í Hafnarfirði ætlaður nokkurn veginn sami niðurskurður og á Húsavík og umtalsverður samdráttur sömuleiðis í rekstri sjúkrasviða á Suðurnesjum, Selfossi og í nágrenni höfuðborgarinnar.

Ef við tækjum menntamálaflokkinn fyrir er fljótreiknað að þyngstur hluti niðurskurðarins hjá háskólum og framhaldsskólum kemur auðvitað fram hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef við tökum niðurskurð og samdrátt núna tvö eða reyndar þrjú skipti í röð á Stjórnarráðinu og almennri stjórnsýslu kemur hann að sjálfsögðu langþyngst niður hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þessi rekstur er og hann er umfangsmestur. Má ég þá minna á að samtals er þá samdrátturinn í almennri stjórnsýslu og yfirstjórn hins opinbera að nálgast 20% og jafnvel rúmlega það ef teknar eru saman aðgerðirnar í fjárlögum 2009, á miðju ári 2009 og aftur í fjárlögum ársins 2010 á sama tíma og samdráttur í velferðarútgjöldum er um eða innan við 9% að samtölu.

Ef við greinum þetta og ef við tökum heildarmyndina er það nú ekki svo sem betur fer að landsbyggðin dragi í þeim efnum endilega styttra strá. Má ég þá líka minna á að þrátt fyrir allt er þó atvinnuástandið skárra þar og hið almenna atvinnulíf og raunhagkerfið sjálft hefur staðist betur þar og hrunið varð ekki síst hér í hinu ofvaxna bankakerfi og ofþanda mannvirkja- og byggingageira.

En eins og ég sagði áðan eru vissulega þarna á ferðinni erfiðar tillögur sem (Forseti hringir.) boðað hefur verið að farið verði yfir. Hins vegar tel ég að menn eigi ekki að segja meira en það á þessu stigi og ég treysti mér ekki til að gefa neitt út fyrir fram um það í hvaða mæli er hægt að færa til eða endurskoða (Forseti hringir.) þessa hluti þannig að það verði ásættanlegra.