139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir að atvinnuástandið sé skárra á landsbyggðinni. Ég ætla að leyfa mér að hafna þessari fullyrðingu algjörlega. Hvað gerist ef fólk missir vinnuna úti í hinum dreifðu byggðum landsins? Það tekur upp heimili sitt og flytur í burtu. Samfélagslegu áhrifin við það að skera niður og loka stofnunum eru miklu, miklu mun meiri en gengur og gerist hér á suðvesturhorninu.

Ég er ekki að segja að það sé á einhvern hátt betra að skera niður hér en ég vil samt benda á að 70% af niðurskurðinum fara fram úti á landi. Við skulum líka hafa það á hreinu að jafnvel þó að atvinnuleysistölur mælist lágar í Þingeyjarsýslum verður að taka inn í brottflutning til að mynda ungs fólks sem skilar sér ekki til baka.

Nú er víða um land verið að skera niður grunnþjónustuna í samfélögunum. Hvað þýðir það? Það er verið að skera niður undirstöðurnar í þeim samfélögum. Þessi samfélög reiða sig á að þar séu sérfræðingar á öllum sviðum sem hægt er leita til með mjög skömmum fyrirvara.

Mér er líka til efs að þessar tillögur skili sér sem hagnaður inn í ríkissjóð. Hvað með atvinnuleysisbætur, lækkun skatttekna, flutning kostnaðar á aðrar stofnanir og flutning kostnaðar á Sjúkratryggingar Íslands plús svo að auki aukinn kostnað á íbúana á þessum svæðum við að sækja þjónustuna um langan veg?

Virðulegi forseti. Það ríkir örvænting víða um land, mikil örvænting, og ég hef heyrt í mörgu fólki. Við skulum vera ábyrg en við skulum þá (Forseti hringir.) koma hér fram, og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að gera það, og segja nákvæmlega hver stefnan er varðandi (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.