139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég veit ekki hvort ég á að lesa minnisblaðið sem hann gleymdi í pontunni. [Hlátur í þingsal.] En ég lýsi því yfir hér að ég er til í að skoða alla skapaða hluti. Ég vil hins vegar ekki, og ég undirstrika það, vinna þetta með þeim hætti sem hér er lagt til. Við getum ekki undir nokkrum kringumstæðum sett samfélög eins og þessi í þetta uppnám sem greinilega á sér stað. Ef gera á svona miklar breytingar eins og hér er lagt til geri ég þá kröfu að fólkinu á þessum stöðum sé gefinn tími til að aðlagast þeim þó ekki væri meira. Ég trúi því ekki að við getum ekki unnið þetta með einhverjum öðrum hætti. Á það hefur ekkert reynt af minni hálfu. Eins og ég sagði áðan hef ég haft þetta frumvarp undir höndum í fjóra sólarhringa þannig að það er kannski ekki hægt að ætlast til þess af mér að ég sé með mjög nákvæmlega útfærð svör. Stjórnarmeirihlutinn er eðli málsins samkvæmt búinn að vinna í þessum þáttum miklu lengur. En þannig skynja ég þetta og það er sannfæring mín að við getum ekki leyft okkur að koma svona fram, allt of hart, allt of kalt. Og ég fullyrði það eftir samtöl við forsvarsmenn þessara stofnana þar sem verið er að reka fjölbreyttar stofnanir að þær einingar sem eftir verða eru svo litlar þegar er búið að tæta út úr þeim allt saman að stofnunin er rúst. Þá er miklu betra að ræða það hreinlega að loka þessu, loka sjoppunni ef menn vilja það. Ég trúi því bara ekki upp á þingmenn dagsins í dag að þannig sé hugsunarhátturinn.