139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég vil í sjálfu sér ekki þjarka við hæstv. ráðherra um hverju var lofað eða ekki lofað fyrir kosningar. Það er mjög einfalt að fletta upp í þessum gögnum og stefnuskrám framboðanna. Ég hafði hugsað mér að lesa allrækilega upp úr stefnuskrám bæði VG og Samfylkingar en sleppti því af háttsemi við áheyrendur og hv. þingheim og bið menn um að skoða þetta sjálfir og rifja þetta örlítið upp.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra heldur fram að ég er tilbúinn til að ræða það með hvaða hætti við getum endurskipulagt þessa þjónustu. Gallinn við frumvarpið eins og hann kemur fram er sá að ég sem almennur þingmaður átta mig ekki undir neinum kringumstæðum á því í texta frumvarpsins hvernig á að gera þetta. Það hljóð heyri ég líka frá heilbrigðisstofnunum sem eiga að verða fyrir þessu. Þá orðræðu hef ég líka heyrt innan úr hæstv. ráðuneyti að það eigi að skoða hvort það sé yfir höfuð hægt að gera þetta eða fara svona bratt í þetta, svo ég vitni beint til orða hæstv. fjármálaráðherra.

Það er rétt að það eru veikleikar í þjóðarbúinu sjálfu og vafamálið í mínum huga er hvort fjárlagafrumvarpið taki nægilega mikið mið af þeim veikleikum. Ég vil nefna eitt dæmi varðandi uppsjávarfiskana sérstaklega. Þar er gert ráð fyrir að leggja því hafrannsóknarskipi sem á að meta stofnstærðir og fylgja þeim tegundum eftir. Er það ráðlegt af okkur í þeirri stöðu, bara beint peningalegt mat? Er það ráðlegt hjá íslenskri þjóð að leggja af rannsóknir á uppsjávartegundum þegar svo háttar til? Ég set spurningarmerki við það og vil skoða hvort við getum haldið þeirri starfsemi áfram með einhverjum öðrum hætti í fjármögnun á því verkefni.