139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er erfitt að spá eins og margoft er nefnt og sérstaklega um framtíðina eins og gárungarnir segja stundum, en engu að síður verðum við með einhverjum hætti að búa okkur undir það að þessar mismunandi spár geti gengið eftir. Ég spyr í rauninni sjálfan mig ekkert síður en hæstv. ráðherra um það hvernig við getum búið okkur undir hinar mismunandi breytur sem koma upp og kalla á það að fjárlögin eins og þau eru lögð upp gangi ekki eftir.

Það er ærið verk ofan í allt annað sem bíður að endurgera frumvarpið eins og hæstv. ráðherra nefndi þó ekki væri nema með því að fella saman þessi fjárlaganúmer, en það sem gerir það flókið og erfitt er að menn þurfa að setja sig inn í það aftur á ný út frá hinum nýju númerum. Eins og staðan er núna erum við að meta þetta undir hverju fjárlaganúmeri eins og það liggur en svo verður þessu steypt saman væntanlega fyrir 2. umr. og þá þarf maður að fara í gegnum þetta aftur. Þetta er flókið verk, mikil hætta á mistökum, mikil vinna sem enginn telur eftir sér en þetta eykur líkurnar á mistökum og það er ekki á bætandi.

Ég vil ítreka líka að mitt sjónarmið er það að þegar þessari umræðu lýkur er frumvarpið komið til Alþingis og Alþingi verður að vinna það á sínum forsendum og skila því aftur inn til þingsins til afgreiðslu einhvern tíma undir jól ef allt fer þokkalega vel og þá treysti ég því að Alþingi sjálft sjái svo um og búi þannig um hnútana að fjárlaganefnd verði sköpuð þau skilyrði að vinna sómasamlega að þessu vandaverki sem vissulega liggur fyrir okkur því að þetta verða mjög erfið fjárlög að semja.