139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér nú og liggur fyrir Alþingi ber ótvírætt vitni þeim efnahagslegu hörmungum sem Ísland varð fyrir haustið 2008. Það var alltaf vitað og um það rætt að fjárlög næsta árs, þ.e. fjárlög 2011, yrðu þau erfiðustu í kjölfar efnahagshrunsins en um leið kannski þau sem mestu máli skipta við endurreisn efnahagslífs landsins.

Eins og fram hefur komið urðu áhrif efnahagskreppunnar mjög afdrifarík á Ísland og íslenskt samfélag, jafnvel mun alvarlegri en víðast hvar annars staðar. Hvergi annars staðar var fall bankakerfisins af þeirri stærðargráðu sem hér varð og sama má segja um fall margra helstu fyrirtækja landsins. Þessu til viðbótar er varla hægt að finna hliðstæðu við hrun gjaldmiðilsins og afleiðingar þess eru miklar fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Afleiðing þessa alls var mikill samdráttur í samfélaginu öllu, jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum, sem endurspeglaðist síðan í afkomu ríkissjóðs. Í hruninu varð ríkissjóður fyrir mörgum þungum höggum og er íslenska ríkið nú afar skuldugt sem auðvitað takmarkar mjög möguleika ríkisins til að bregðast við þeim vanda sem nú steðjar að okkur öllum.

Eitt af þyngstu höggunum sem lentu á ríkissjóði var vegna tapaðra krafna Seðlabankans á fjármálafyrirtæki sem ríkið þurfti að yfirtaka og afskrifa til að koma í veg fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Það tjón nam um 192 milljörðum kr. og var gjaldfært í ríkisreikningi ársins 2008.

Reikna má með því að kostnaður við endurfjármögnun banka og sparisjóða sé u.þ.b. 200 milljarðar kr. og þótt þar komi eignarhlutir á móti sem vonandi munu skila hagnaði þegar upp verður staðið er um gríðarlegar upphæðir að ræða sem þarf að reiða út úr ríkissjóði í dag.

Ríkissjóður gaf á sínum tíma út skuldabréf til að forða Seðlabankanum frá gjaldþroti, en það bréf hefur nú verið lækkað niður í 170 milljarða kr. eftir að Seðlabankinn yfirtók aftur hluta af kröfum sem gengið höfðu til ríkisins. Ríkið hefur einnig þurft að standa að verulegum lántökum, m.a. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og samstarfslöndum um áætlun um endurreisn efnahagslífsins, m.a. til þess að stækka gjaldeyrisvaraforða landsins. Reikna má með því að sá hluti sem þessi skuld ríkissjóðs er geti verið u.þ.b. 120 milljarðar kr.

Halli ríkissjóðs á árinu 2009 var um 140 milljarðar kr. og áætlanir ársins í ár gera ráð fyrir halla upp á 100 milljarða kr. og að á næsta ári verði hann innan við 40 milljarðar kr. Hér er um gríðarlegar upphæðir að ræða, virðulegi forseti, og afleiðing þess er m.a. þau gríðarlegu vaxtagjöld sem við erum nú að glíma við. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði vaxtagjöldin um 4,5% af vergri landsframleiðslu, þ.e. um 16% af tekjum ríkissjóðs. Til samanburðar má nefna að vaxtatekjur ársins 2007 voru um 1,7% af vergri landsframleiðslu og hafa því aukist sem því nemur.

Ríkissjóður varð fyrir verulegum tekjubresti í kjölfar hrunsins og atvinnuleysi margfaldaðist og fór í áður óþekktar hæðir sem við munum ekki una við til lengri tíma.

Forseti. Það er ekki ástæða til að dvelja öllu lengur við þessar staðreyndir sem blasa við okkur öllum, þ.e. þeim sem vilja á þær horfa. Ítarlega hefur verið fjallað um þetta á undanförnum missirum, m.a. í ræðum þingmanna hér í dag. Það er þó nauðsynlegt að rifja upp helstu þætti þessa máls til að minna okkur á þau verkefni sem blasa við okkur og nauðsyn þess að bregðast við þeim með skjótum og ábyrgum hætti.

Ef við ætlum á annað borð að skapa hér það þjóðfélag sem við flest viljum búa í og teljum til velferðarþjóðfélaga sem kennd eru við norræn ríki er algjör forsenda að við náum tökum á ríkisfjármálunum . Að öðrum kosti munum við færast enn aftar í tíma og það verður okkur enn erfiðara að snúa blaðinu við með hverju árinu sem líður þar til það verður að lokum ógerlegt. Það verður því aldrei nægilega undirstrikað að nú verðum við öll að taka höndum saman um að ná tökum á ríkisfjármálunum og að við gerum okkur ljóst hvaða afleiðingar það hafi í för með sér ef við gerum það ekki.

Forseti. Á undanförnum árum hefur ríkt mikið agaleysi í samfélaginu öllu. Það á ekki síst við um rekstur ríkisins. Ótal dæmi eru um þá óráðsíu sem hér ríkti og afleiðingar þess hvað fjármálastjórn íslenska ríkisins var slæm og óábyrg. Þær afleiðingar blasa við okkur öllum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2005 er fjallað um þessa óráðsíu og segir m.a. um hana, með leyfi forseta:

„Í árslok 2005 hafði ríflega fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir eða alls 135 fjárlagaliðir. Af þeim voru 96 með meira en 4% halla en skv. reglugerð um framkvæmd fjárlaga ber að grípa til sérstakra aðgerða ef farið er yfir þessi mörk.“

Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Brúttó frávik svarar til 11,6% af gjöldum ársins 2005 hjá A-hluta ríkissjóðs.“

Áfram heldur Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga 2005 og segir:

„Í reglugerð nr. 1061/2004, um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta, er skýrt kveðið á um skyldur forstöðumanna stofnana og eftirlitshlutverk ráðuneytanna. Ljóst er að í allt of mörgum tilfellum eru ákvæði reglugerðarinnar virt að vettugi og þannig gefið í skyn að fjárlög séu ekki annað en áætlun sem hafa beri til hliðsjónar, en sem heimilt sé að víkja frá í verulegum mæli án atbeina Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið. Það er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt.“

Þetta eru alvarlegar athugasemdir hjá Ríkisendurskoðun vegna framkvæmdar fjárlaga árið 2005, fyrir fimm árum, og þetta eru fyrstu athugasemdir í langri röð slíkra athugasemda af hálfu Ríkisendurskoðunar. Það hefði mátt ætla að gripið yrði til róttækra ráðstafana við slíka ádrepu.

Ríkisendurskoðun heldur áfram að gefa út skýrslur um framkvæmd fjárlaga. Um framkvæmd fjárlaga næsta árs á eftir, 2006, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Eins og mörg undanfarin ár fóru útgjöld A-hluta ríkisins á árinu 2006 verulega fram úr fjárlögum. […] Þessi aukning þýðir að veittar voru heimildir til að stofna til 14,1% hærri útgjalda á árinu 2006 en árið þar á undan.

Í lok árs 2006 stóðu 75 fjárlagaliðir í halla umfram 4% vikmörk reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Þetta er um það bil sjöundi hver fjárlagaliður …“

Ríkisendurskoðun heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þegar öllu er á botninn hvolft felst vandamálið í agaleysi allra aðila, bæði forstöðumanna sem hlut eiga að máli og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem forstöðumennirnir heyra undir.“

Þegar öllu er á botninn hvolft felst vandamálið í agaleysi allra aðila, eins og svo greinilega blasir við.

Þetta er þungur dómur sem Ríkisendurskoðun fellir á þessum árum um stjórn efnahagsmála.

Ríkisendurskoðun skoðar líka framkvæmd fjárlaga árið 2007 í skýrslu á hinu fræga ári 2008. Hvað segir stofnunin um fjármálastjórnina eftir allar ádrepur fyrri ára og hver voru viðbrögðin við þeim ádrepum?

Með leyfi forseta langar mig til að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2007. Þar segir:

„Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana. Þá hefur stofnunin ítrekað bent á misræmi í ákvörðunum fjárveitingavaldsins og framkvæmdarvaldsins. Þar er átt við að fjárveitingavaldið ákvarði umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs en forstöðumenn og ráðuneyti taki sér iðulega vald til að auka umfang hennar umfram lögbundnar heimildir. Slíkar ábendingar Ríkisendurskoðunar hafa litlu skilað. Loks er vert að geta þess að stofnunin hefur um langt árabil bent á nauðsyn þess að áætla rekstrarkostnað stofnana til lengri tíma en nú er gert og styrkja þannig fjárlagaferlið.“

Í skýrslunni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Af þeim þrettán stofnunum sem sérstaklega var fjallað um í skýrslu um framkvæmd fjárlaga 2006 voru tólf enn með halla umfram 4% viðmiðið í árslok 2007. Ljóst er því að ekki hefur verið tekið á rekstrarvanda þeirra. Þetta er algjörlega ólíðandi.“

Ríkisendurskoðun heldur svo áfram í talsvert löngu máli um þetta atriði en endar, með leyfi forseta, á þessum orðum:

„Umfang halla og uppsafnaðra fjárheimilda í árslok 2007 sýna að ekki hefur verið brugðist við síendurteknum ábendingum Ríkisendurskoðunar. Stofnunin getur eðli málsins samkvæmt ekki annað en komið sínu áliti á framfæri með þeim hætti sem hér er gert.“

Það er ráð Ríkisendurskoðunar, hún getur ekki annað en komið ábendingum sínum á framfæri eins og segir í skýrslunni. Það er síðan fjárlaganefndar Alþingis að taka við þeim ábendingum og gera úr þeim það sem mönnum þar þóknast. Það hefur víst lítið verið eftir því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2009 og janúar til apríl 2010 er annar tónn sleginn. Ég ætla að sleppa hér umsögn um árið 2008 því að það var að mörgu leyti afbrigðilegt ár og ósanngjarnt að taka það inn í þessi dæmi.

Með leyfi forseta segir Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga 2009:

„Áform um tekjuöflun ríkisins á árinu 2009 gengu [því] eftir og gott betur. […] Heildargjöld A-hluta ríkissjóðs á árinu voru hins vegar 12 milljörðum kr. lægri en heildarfjárheimildir ársins en 23 milljörðum kr. hærri en heimildir fjárlaga [gáfu til kynna]. Samkvæmt þessu tókst að halda útgjöldum ríkisins innan fjárheimilda á árinu 2009. Þar skiptir tvennt mestu máli. Annars vegar reyndist kostnaður við endurreisn bankakerfisins minni en áætlað var. Hins vegar var rekstur fjölmargra stofnana innan fjárheimilda. […] Því blasir við að það tókst að halda rekstri ríkissjóðs innan fjárheimilda fyrstu fjóra mánuði þessa árs.“

Að mati Ríkisendurskoðunar tókst að halda rekstri ríkissjóðs innan fjárheimilda fyrstu fjóra mánuði þessa árs. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki ástæða til annars en að ætla að það geti gengið eftir“, þ.e. það sem síðustu fjórir mánuðir gefa til kynna.

Í fleira mætti vitna úr skýrslum Ríkisendurskoðunar, bæði fyrir yfirstandandi ár og undanfarin ár, sem fróðlegt er að lesa og vitna um það agaleysi sem hefur verið á ríkisfjármálum hér allt of lengi og við erum held ég flest sammála um að hafi verið.

Það má vera ljóst að agaleysi og óstjórn hefur einkennt fjármálastjórn á Íslandi allt of lengi á undanförnum árum og áratugum eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Um þetta þarf í sjálfu sér ekki að deila eða hafa um fleiri orð.

Með því að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir fyrstu fjóra mánuði þessa árs og ársins 2009 er ég ekki að halda því fram að við höfum náð tökum á öllu því sem við þurfum að ná tökum á í rekstri ríkisins. Það er langur vegur frá því. Það er enn nokkuð langt í að stjórn ríkisfjármála verði með því móti sem ásættanlegt er til framtíðar og nauðsynlegt er að verði til framtíðar en við erum á réttri leið. Það er greinilegt af umsögn óvilhallra aðila. Ég vil meina að Ríkisendurskoðun dragi ekki taum ríkjandi stjórnvalda, ekkert frekar en gert var á árum áður þegar Ríkisendurskoðun gagnrýndi það agaleysi og óráðsíu sem að hennar mati einkenndi stjórn ríkisfjármála. Við erum á réttri leið og ég held að það sé okkur öllum að þakka sem hér sitjum í þessum sal á Alþingi og í fjárlaganefnd vegna þess að ég held að það sé einlægur vilji allra fjárlaganefndarmanna, einlægur vilji til að ná tökum á ríkisfjármálunum sem hefur endurspeglast í orðum og störfum þeirra fjárlaganefndarmanna sem ég hef setið með undanfarið ár á Alþingi.

Ég nefni þetta atriði hér til að vekja athygli á nauðsyn þess að við náum að hafa aga á stjórn ríkisfjármála, og nú sem aldrei fyrr. Reynslan á að hafa kennt okkur að það er brýnt að hafa gott eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnunum þess og hvar sem verið er að sýsla með fjármál ríkisins. Ég undirstrika þann einlæga vilja sem ég skynja og hef skynjað hjá fulltrúum allra flokka í fjárlaganefnd. Það er ekki síst þeim einskæra vilja úr hópi fjárlaganefndarmanna að þakka hversu vel okkur tekst líka að halda utan um stöðuna í dag, að líta gagnrýnið á það hvernig fjármunum er varið af hálfu ríkisins, af hálfu stofnana og ráðuneyta, spyrja spurninga og kalla eftir upplýsingum. Það er hlutverk okkar að gera það og á okkar ábyrgð að fylgja því eftir að farið sé með fjármuni með þeim hætti sem við viljum að gert sé. Það á ekki síst við núna þegar horft er í hverja einustu krónu sem til skiptanna er, þó ekki til skiptanna í raun og veru heldur sem við verðum að reyna að skipta einhvern veginn á milli til að halda samfélaginu á floti meðan við erum að reyna að ná tökum á efnahagsástandinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða hér um einstaka liði fjárlagafrumvarpsins heldur geyma mér það til betri tíma, sérstaklega þegar frumvarpið verður komið til kasta fjárlaganefndar þar sem við munum vonandi ræða það miklu nákvæmar og ítarlegar en við getum og ætlum að gera hér. Ég ætla líka að geyma mér þá umræðu þar til við fáum frumvarpið eftir þá vinnu fjárlaganefndar til 2. umr. á Alþingi og línur farnar að skýrast betur í því í hvaða átt við ætlum að fara með það.

Það eru erfiðir tímar hér á landi og þeir tímar verða erfiðir hvað sem hver segir, hverju sem menn halda á lofti og hverju sem menn lofa. Það er auðvelt í ástandi eins og er í dag að lofa umfram það sem menn geta staðið við, en það er óábyrgt. Það er ábyrgt að segja ekki meira í því ástandi sem hér er en við getum staðið við. Það eigum við að gera. Við eigum ekki að reyna að tala inn í eyru þeirra sem eru í vandræðum og gefa til kynna að það sé auðveld leið út úr þessum erfiðu málum. Hún er ekki til. Það er engin töfralausn til og það er óábyrgt að halda slíku fram.

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig tilbúinn til að reyna að ná samkomulagi um gerð fjárlaga næsta árs við alla flokka á Alþingi og alla þingmenn á Alþingi. Það á við um einstök atriði þessa frumvarps sem hér liggur fyrir og það á við um allt annað sem að fjárlagagerðinni lýtur. Ég undirstrika að ég hef skynjað þann vilja hjá fjárlaganefndarmönnum, í það minnsta þeim sem ég hef setið með hingað til — ég veit ekki hvaða breytingar hafa orðið á fjárlaganefndinni núna ef einhverjar hafa orðið á annað borð, hef ekki fylgst með því — og ætlast til þess og vonast til þess að við munum ná saman um að leiða þessi fjárlög til lykta. En markmiðin þurfa að vera skýr ef um frumvarpið á að nást sátt. Ef við ætlum að ná sátt um einstaka liði frumvarpsins verðum við að vera sátt við þau markmið að ætla að ná tökum á ríkisfjármálunum, gera ríkisfjármálin sjálfbær, stöðva skuldasöfnunina og reyna að stilla upp á nýtt miðað við getu okkar til að reka þetta samfélag.

Það er mín einlæga von að við náum að stilla saman strengi, bæði á þingi og ekki síst í fjárlaganefnd eins og ég hef margítrekað sagt í ræðu minni og ég hef vonir til að svo verði. Þótt við munum takast á um einstök atriði skulum við vera sammála um markmiðin. Þau eiga að vera skýr. Þau eru algjörlega nauðsynleg. Það er nauðsynlegt sem aldrei fyrr. Þetta eru þau mikilvægustu fjárlög sem við komum til með að glíma við, nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að ná tökum á þessum málum, höldum utan um útgjöldin, fylgjumst með því í hvað fjármununum er eytt þannig að við stöndum ekki hér í verri sporum að ári en við þó stöndum í í dag.