139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir ræðuna. Ég er sammála honum um að það þurfi að vera meiri agi í ríkisfjármálum en verið hefur. Hann las upp úr skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árunum 2005 og til dagsins í dag. Ég vil taka fram að allir flokkar bera ábyrgð á þeirri þenslu sem þá átti sér stað, það var sífelld krafa frá vinstri flokkunum um að gera allt fyrir alla, og aldrei var nóg gert í þeim efnum, bara svo að það sé sagt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um störf hins svokallaða ríkisfjármálahóps. Nú er hv. þingmaður í þeirri skrýtnu aðstöðu að þurfa að taka til endurskoðunar og jafnvel gagngerra breytinga fjárlagafrumvarp sem hann átti þátt í að vinna ásamt starfsmönnum fjármálaráðuneytisins. Ég hef gagnrýnt þetta fyrirkomulag og bent á að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið eigi að vera aðskilið, auk þess sem þetta séu dæmi um vond vinnubrögð fortíðarinnar, vinnubrögð sem við öll viljum breyta og laga. Ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um að breyta þurfi þessum vinnubrögðum. Það var athyglisvert að heyra hversu oft nefndin kom saman og hvernig vinnan gekk. Sér í lagi eftir að fyrrum formaður fjárlaganefndar hætti í ríkisfjármálahópnum, en hæstv. (Forseti hringir.) félags-, trygginga- og heilbrigðismálaráðherra Guðbjartur Hannesson var meðlimur í þessum hópi.