139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi ræðuna sem hér var flutt ber að þakka hv. þingmanni yfirferðina um söguna og minna menn á agaleysi, sem er í sjálfu sér alveg rétt. Það var, eins og hefur komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar, ákveðið los í þeim öra vexti og því mikla umróti sem var. Ég tek undir að auka þarf á agann og ég vek athygli á að þetta sama agaleysi er enn fyrir hendi, því miður. Ég get alveg nefnt dæmi um það.

Við fjárlaganefndarmenn fengum allt í einu tilkynningu um 350 millj. kr. útgjöld til viðhalds, bara tilkynningu, við lásum um þetta í fjölmiðlum. Ég minni á það sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, núverandi dómsmálaráðherra, gerði vorið 2009. Hann afturkallaði samþykkt Alþingis um framkvæmd á breytingum útgjalda heilbrigðisþjónustunnar.

Ég ætla líka að minna á að allt í einu var hallinn á LSH 2,8 milljarðar, vegna láns. Þess sér engan stað í fjárlagafrumvarpinu hvernig á að fara með það. Ég deili því áhyggjum hv. þingmanns en kalla sömuleiðis eftir því hvernig hann, sem varaformaður fjárlaganefndar, oddviti annars stjórnarflokksins, hyggst beita sér fyrir breytingum í þessum efnum gagnvart núverandi framkvæmdarvaldi.