139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum kannski nær því en oft áður að ná saman því að menn lýsa sig reiðubúna að vinna að því reyna að ná saman ríkisfjárlögum enda eru miklir hagsmunir í húfi.

Mig langar að víkja að tveimur þáttum. Í fyrsta lagi eru það efnahagsforsendurnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki áhyggjum mínum um forsendurnar sem gefnar eru í fjárlagafrumvarpinu varðandi hagvöxtinn þar sem segir, og fjármálaráðherra gerir ráð fyrir, að hagvöxturinn verði 3,2% í stað 2,3%, sérstaklega í ljósi þess að samdrátturinn er mun meiri en gert var ráð fyrir. Hagstofan spáði á sínum tíma 2,3% samdrætti í hagvexti en hann fór í 2,9%, þ.e. hann jókst verulega. Má ekki gera ráð fyrir að það sama gerist hér? Ég ætla ekki að tala um blekkingar, ég held að ekki sé rétt að nota svo stór orð hérna, en er þetta ekki óraunsæi í forsendum fjárlagafrumvarpsins?

Síðan er annað sem veldur mér miklum áhyggjum og snertir skuldamál heimilanna. Það eru hækkanir á þáttum sem snerta beint vísitöluna, þ.e. hækkunin á bensíngjaldinu upp á 2 kr., minnir mig, og hækkunin á áfengis- og tóbaksgjaldinu. Það hefur greinilega sýnt sig að sú hækkun mun ekki skila sér, hún gerði það að minnsta kosti ekki á síðasta ári í neinum verulegum mæli og mun ekki skila sér í neinu öðru en hækkunum á lánum fjölskyldnanna í landinu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Deilir hann ekki þeim áhyggjum með mér að þessar hækkanir muni hafa bein áhrif á verðlagið og á lán fjölskyldnanna í landinu og hafi ekki síður vond áhrif á þær mikilvægu (Forseti hringir.) samræður sem við þurfum að eiga við aðila vinnumarkaðarins á komandi tímum?