139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er svo vond ríkisstjórn að mati hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og þess vegna er ekki hægt að fjármagna stór verkefni á Íslandi.

Fyrir örfáum dögum var viðtal í fjölmiðlum við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, sem hafði aðra sögu að segja varðandi fjármögnun þeirra verkefna sem Landsvirkjun hefur í hyggju að fara í. Þar segir hann berum orðum að ekki takist að fjármagna stórverkefni á Íslandi vegna óleystra deilna við erlend ríki (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður hefur staðið í vegi fyrir og reynt að berjast gegn að náð sé samkomulagi um. Þetta er ekki eins einfalt og hv. þingmaður vill vera láta. Það er ekki svo einfalt að hægt sé að segja: Það er bara vond ríkisstjórn sem vill ekki að það sé atvinnulíf í landinu. Svona á ekki að tala, hv. þingmaður, ofan í fólk eins og ástandið í samfélaginu er í dag því að þetta er beinlínis rangt.