139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi óþarflega þungar áhyggjur af kynjaðri hagstjórn. Hún vegur ekki þungt í þessu og ráðuneytin mæta henni sjálf í þeim verkefnum sem þau takast á við. Fjármálaráðuneytið heldur svo utan um þetta og laun eins verkefnisstjóra vega nú heldur ekki mjög þungt. Þetta er lærdómsferli og það kostar að mennta sig og munt taka mörg ár að innleiða þessa aðferðafræði. Þannig hafa önnur lönd gert þetta með ágætum árangri að þau telja sjálf og telja gagnlegt að setja þessi gleraugu á nefið. Þegar til lengri tíma er litið sé það kostur. Gjarnan mættum við setja fleiri gleraugu á nefið þegar við lesum í mikilvæga hluti eins og fjármál ríkisins og hvernig þau verka, svo sem eins og umhverfisgleraugun, byggðagleraugun og þar fram eftir götunum.

Ég vil aðeins nefna, vegna þess sem hv. þingmaður sagði um Landspítalann, að það verklag hefur verið mótað og því var lýst að einhverju leyti í greinargerð með síðasta fjárlagafrumvarpi, ef ég man rétt, að setja fastmótaðri reglur um tvo þætti sem lausung hefur ríkt um í of miklum mæli á umliðnum árum. Annars vegar er það ráðstöfun ónýttra heimilda og yfirfærsla þeirra. Hins vegar er það hvernig stofnanir sem glíma við uppsafnaðan halla og skuldahala eru aðstoðaðar í því að takast á við það. Aðstoðin er einföld. Hún var einmitt notuð í tilviki Landspítalans. Við segjum fyrir fram: Stofnanir sem ná tökum á rekstrinum og komast inn fyrir fjárheimildir verða aðstoðaðar og þeim umbunað, m.a. með því að hjálpa þeim við að taka skuldahalann niður í áföngum, fella hann að einhverju leyti niður í lokafjárlögum o.s.frv. Þetta var akkúrat gert við Landspítalann. (Forseti hringir.) Þegar hann gat sýnt fram á að hann hefði náð mjög markverðum viðsnúningi í sínum rekstri og væri kominn inn fyrir heimildir, var hann aðstoðaður við skuldirnar. (Forseti hringir.)