139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það fari ekki milli mála þá fagna ég, líkt og hæstv. fjármálaráðherra, þeim árangri sem náðst hefur í rekstri Landspítalans. Ég fagna honum sérstaklega. Það er gríðarlega mikilvægt að sú stóra stofnun sé innan fjárheimilda. Það er þakkarvert og mjög gott. En af því hæstv. fjármálaráðherra talar um verklagsreglur, þá man ég bara ekki eftir því að þær hafi verið kynntar fyrir fjárlaganefnd. (Gripið fram í.) Því miður, ég man ekki eftir því að það hafi verið gert með þeim hætti.

Síðan langar mig að spyrja: Hvað gerist þá? Hvar er fjármagnskostnaðurinn við skuldina færður til dæmis? Það vakna margar spurningar. Ég segi ekki þar með að verklagsreglurnar séu mér ekki að skapi. Við ræddum fyrir nokkrum dögum að við þyrftum að styrkja þingið gegn framkvæmdarvaldinu og eftirlitshlutverk fjárlaganefndar í heild sinni. Þá er gríðarlega mikilvægt að fjárlaganefndin fái svona upplýsingar og sé algjörlega meðvituð um hvað er að gerast. Það er óþolandi að sjá alltaf þessar tilkynningar í blöðunum.

Síðan minni ég á eitt sem rætt hefur verið í fjárlaganefnd. Nú er einn liður inni í frumvarpinu sem var líka í fyrra og ég taldi að væri mjög fín breyting, þ.e. hæstv. fjármálaráðherra hefur 5 milljarða til að bregðast við ákveðnum aðstæðum sem geta komið upp. Þær reglur á eftir að skrifa og það á eftir að kynna þær fyrir nefndinni svo við séum alveg meðvituð um hvað mun í raun og veru fara þar fram. Ég er hins vegar mjög hlynntur því að þetta sé gert svona því það mun að sjálfsögðu skapa meiri líkur á að við höldum okkur innan fjárlaga.

Síðan en ekki síst það sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi með tónlistarhúsið, sem er mér mjög lítið að skapi og ég nánast þoli ekki. Auðvitað átti að hætta að byggja tónlistarhúsið og láta það standa sem minnisvarða um þetta rugl sem var hér í gangi (Gripið fram í.) Þetta er algjört rugl.

Síðast en ekki síst eitt sem ég gleymdi að koma inn á. Listamannalaun eru hækkuð um 35 milljónir. Af hverju geta þessir listamenn ekki farið að vinna (Forseti hringir.) og komið sér bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk?