139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur tíðkast um árabil og ég geri ráð fyrir að svo sé líka núna, að þess hefur verið óskað að hæstv. ráðherrar væru viðstaddir þessa umræðu. Þótt fjárlagafrumvarpið svari ýmsum spurningum þá vekur það líka mjög margar spurningar sem enginn getur svarað nema viðkomandi ráðherrar. Ég sá það áðan að einungis þrír hæstv. ráðherrar eru staddir í húsinu og ég tel það algjörlega óeðlilegt. Ég tek til máls á eftir og þarf að leggja spurningar m.a. fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég fer náðarsamlegast fram á það við hæstv. forseta að gerðar verði ráðstafanir til að a.m.k. þessir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna.

Ég tel að það sé algjörlega óviðunandi, nokkrum dögum eftir að hér hefur verið flutt sérstök sjálfstæðisyfirlýsing þingsins, að framkvæmdarvaldið umgangist þingið eins og kemur fram í dag og ráðherrarnir sniðgangi umræðuna. Þeim ber skylda að þingsköpum að vera viðstaddir umræðu og sérstaklega þegar verið er að ræða um (Forseti hringir.) fjárlögin.