139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fór ekki fram á neina könnun. Ég fór fram á að a.m.k. þessir tveir hæstv. ráðherrar sem ég nefndi sérstaklega, hæstv. heilbrigðisráðherra sem er í húsinu og ég geri ráð fyrir að verði þá viðstaddur á eftir, og líka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ég þarf að eiga orðastað við, verði viðstaddir. Það líður hratt á umræðuna. Hver ræðumaður hefur 10 mínútur. Auðvitað þurfa hæstv. ráðherrar sem kunna að vera fjær húsinu tíma til að gera ráðstafanir til að koma hingað. Ég fer fram á það að hæstv. ráðherrar, a.m.k. hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verði viðstaddir þegar ég flyt ræðu mína þannig að þeir geti svarað spurningum. Umræðan er m.a. hugsuð til þess að fá skorið úr ýmsum álitamálum sem uppi eru og fá svör frá hæstv. ráðherrum. Það verður að gera þá sjálfsögðu kröfu, a.m.k. svona fáeinum dögum eftir að sjálfstæðisyfirlýsing þingsins hefur verið flutt, að hæstv. ráðherrar láti sjá sig í húsinu.