139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þess fjárlagafrumvarps sem við ræðum núna hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, ekki síst vegna þess að frá því var greint fyrr á þessu ári að í raun og veru hefði ekki verið pólitískur meiri hluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem var verið að undirbúa. Þá gerðist það að forustumenn hæstv. ríkisstjórnar ákváðu að fara í hrókeringar á ráðherrastólum vegna þess að þar með væri hægt að tryggja meiri hluta með þessu fjárlagafrumvarpi.

Að forminu til er þetta annað fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar en í raun og veru má segja að þetta sé fyrsta fjárlagafrumvarp hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar því að það var einmitt seta hans á ráðherrastólnum sem er fjærst mér til hægri sem gerði það að verkum að hægt var að leggja fram þetta fjárlagafrumvarp. Seta hans að nýju í ríkisstjórn tryggði að kominn var pólitískur meiri hluti fyrir frumvarpinu og þess vegna má segja að það sé ekki síst á ábyrgð hans og þeirra annarra sem ekki hafa verið upplýstir hverjir eru sem höfðu hótað því að styðja ekki fjárlagafrumvarpið en gera það núna vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á ríkisstjórninni.

Núna sjáum við hins vegar að aftur er komin óvissa í kringum fjárlagafrumvarpið. Við heyrðum að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég hafði óskað eftir að væri viðstaddur þessa umræðu, greindi frá því að hann hefði ákveðna fyrirvara um hvernig ýmsar tillögur væru útfærðar í þessu fjárlagafrumvarpi. Hæstv. ráðherra stendur með öðrum orðum ekki endilega að því að fjárlagafrumvarpið verði með þessum hætti og hefur fyrirvara um allar forsendur þess. Við heyrðum í einum hv. þingmanni í umræðunni sem fór fram í gærkvöldi, sem lýsti því yfir að hún teldi það ekki koma til greina að skera eins harkalega niður í heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og frumvarpið gerir ráð fyrir. Og annar þingmaður stjórnarliða hefur kallað eftir fundi í heilbrigðisnefnd til þess að fara yfir niðurskurðarhugmyndirnar, væntanlega ekki til þess að fagna þeim heldur til þess að varpa ljósi á þær alvarlegu afleiðingar sem þessi niðurskurður hefur í för með sér.

Auðvitað er hæstv. ráðherra vandi á höndum, því gerum við okkur öll grein fyrir. Það er ekki hægt að fara almennt út í efnahagslegar forsendur en við vitum að það skiptir mjög miklu máli að hafa gott samráð þegar við erum að fást við svona erfiða hluti. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir í panikkkasti í gærkvöldi að hún vildi auka samráðið en við sjáum hvernig staðið var að samráði varðandi fjárlagafrumvarpið. Var t.d. talað við það fólk sem best þekkir til í stofnununum? Var talað við forstöðumenn ríkisstofnananna og því velt upp hvort niðurskurðarhugmyndirnar væru raunhæfar og skoðað með þeim hvaða afleiðingar þær hefðu í för með sér? Það var ekki gert. Það var farið í þetta mál allt saman með öfugum klónum.

Nú sjáum við hins vegar til hvers fjárlagafrumvarpið mun leiða, t.d. fyrir heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni, auðvitað blasir það við hverjum manni. Eðlilegast hefði að sjálfsögðu verið að ræða málin, setja fram einhverja stefnumótun og síðan mundi þeirrar stefnumótunar sjá stað í fjárlagafrumvarpinu þegar það kæmi fram.

Við sjáum nú, og það er afleiðing af stefnumótun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, að verið er að leggja niður hefðbundna sjúkrahúsþjónustu á heilu landsvæðunum, það er ekkert flóknara en það. Forustumenn sjúkrahúsanna, t.d. á Ísafirði, Sauðárkróki og Húsavík, hafa lýst því mjög vel. Það þarf ekki að fara betur yfir það, þeir þekkja þessi mál miklu betur en nokkur annar og benda á að þessar niðurskurðarkröfur, eins og þær birtast gagnvart þessum stofnunum, hafi í för með eðlisbreytingu á stofnununum. Þær verða ekki þær stofnanir sem þær eru í dag núna eftir áramótin, niðurskurðurinn leiðir til þess.

Ég fylgdist með hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur, fara um landið og segja okkur frá því að eitt meginmarkmiðið með þeim aðhaldsaðgerðum sem þá voru boðaðar væri að ekki mætti segja upp fólki og alveg sérstaklega mætti ekki segja upp konum. En dettur einhverjum í hug að afleiðingin af þessu fjárlagafrumvarpi verði ekki uppsagnir? Bæði á sjúkrahúsinu á Ísafirði og á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta fjárlagafrumvarp muni að óbreyttu, verði það útfært með þessum hætti, hafa í för með sér uppsagnir á 35–40 manns á hvorum stað. Við erum að tala um 70–80 manna fækkun í þessum mikilvægu störfum á landsbyggðinni. Þar með er búið að taka til baka allan ávinninginn sem við höfðum af svokallaðri norðvesturnefnd og Vestfjarðanefnd.

Þá vil ég víkja að öðru ráðuneyti og ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Telur hann sig geta útfært þessi sparnaðaráform með einhverjum öðrum hætti? Kemur til greina af hans hálfu að hverfa frá 30% niðurskurði á Sauðárkróki og 20% niðurskurði á Ísafirði, svo ég taki dæmi af tveimur stöðum sem stinga sérstaklega í augu?

Kem ég nú að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þar er lagður til nokkur niðurskurður til Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að öðru hafrannsóknaskipinu verði lagt. Á sama tíma er verið að auka fjárheimildir Verkefnasjóðs sjávarútvegsins um 300 millj. kr., það er að vísu rangt sagt í frumvarpinu en verið er að auka fjárheimildir Verkefnasjóðs um 300 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur hann um ráðstöfun þessa fjármagns? Kemur til greina að hans mati að auka fjármuni til Hafrannsóknastofnunar til að tryggja úthald beggja skipanna, t.d. til að tryggja nægilegar rannsóknir á uppsjávarstofnunum sem mjög er kallað eftir, eða hvaða hugmyndir aðrar hefur hæstv. ráðherra þá um ráðstöfun á þeim fjármunum sem þarna eru til reiðu eða verða það væntanlega?

Í annan stað, svo að ég snúi mér að landbúnaðarhlutanum, vekur mikla athygli ákveðin stefnumótun sem þar kemur fram. Hér er gert ráð fyrir því að hverfa frá því að ríkið leggi framlög til Lífeyrissjóðs bænda. Stigið var hálft skref í fyrra, þá var ákveðið að skera framlög til lífeyrissjóðsins niður um 147 milljónir. Núna er þetta mál klárað alveg og skorið er niður um 178 milljónir. Niðurskurðurinn á tveimur árum er því orðinn 325 millj. kr. Það er ekkert sem gefur okkur fyrirheit um að úr því verði bætt. Er ekki ljóst mál að það hefur áhrif á getu lífeyrissjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum gagnvart bændum? Hefur hæstv. ráðherra látið skoða það? Hefur hæstv. ráðherra beitt sér fyrir tryggingafræðilegri úttekt á lífeyrissjóðnum eftir að þetta gerist allt saman? Getur þurft að koma til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum til bænda og telur hæstv. ráðherra að bændur séu svo vel settir í lífeyrismálum að þar sé á bætandi?

Í annan stað: Framleiðnisjóður, sem er helsti rannsóknarsjóður landbúnaðarins, ef þannig má að orði komast, er nánast þurrkaður út, hann er gerður að engu. Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn talar um mikilvægi þess að auka þekkinguna í landinu, að auka og styðja við þekkingariðnaðinn, gera atvinnugreinunum kleift að takast á við ný verkefni á nýjum tímum, gerist það að Framleiðnisjóður landbúnaðarins er nánast þurrkaður út. Að vísu á Framleiðnisjóður peninga frá fyrri árum þannig að hann mun ekki deyja drottni sínum strax á næsta ári en eftir það er ljóst í hvað stefnir. Hér er um að ræða stefnumarkandi ákvörðun hæstv. ráðherra.

Það hefur margvíslegar afleiðingar í för með sér. Fyrstu afleiðingarnar eru auðvitað þær sem blasa við, þ.e. einstök verkefni til bænda, og enn fremur hitt að Framleiðnisjóður hefur gegnt gríðarlega miklu hlutverki fyrir t.d. Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Landbúnaðarháskólinn hefur eðli málsins samkvæmt fengið fjármuni í gegnum Framleiðnisjóð. Einnig var gert ráð fyrir því að Landbúnaðarháskólinn fengi sérstaka fjármuni til rannsóknarstarfsemi sem átti að fylgja skólanum. Sú upphæð hefur verið skorin niður og ég ætla ekki að gagnrýna það á þessari stundu, en það er hins vegar alvarlegt að búið er að skrifa grafskrift Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sem bætist þá ofan á vanda Landbúnaðarháskólans sem hefur átt, eins og menn vita, við heilmiklar fjárhagslegar þrengingar að stríða.

Landbúnaðarháskólinn hefur nefnilega mjög mikla sérstöðu í landinu meðal annarra háskóla. Rannsóknarhluti þess háskóla er meiri en annarra háskóla í landinu, 42% útgjalda Landbúnaðarháskólans eru vegna rannsókna. Hlutfall allra skólanna er hins vegar 32% og enn þá minna ef við tökum burtu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, þá eru aðrir skólar með miklu lægra hlutfall þannig að sérstaða Landbúnaðarháskóla Íslands er mjög mikil. Þess vegna tel ég það vera mjög ámælisvert að skera niður með þessum hætti, að höggva tvisvar sinnum í sama knérunn og veikja þannig Landbúnaðarháskólann.

Loks vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Glittir ekki enn þá í búnaðarlagasamninginn, hæstv. ráðherra? Búnaðarlagasamningurinn rennur út um næstu áramót. Ég get ekki séð það í þessu fjárlagafrumvarpi með hvaða hætti hæstv. ráðherra ætlar að marka búnaðarlagasamningnum ramma. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað sé að frétta af því máli, með hvaða hætti verði tekið á því máli í fjárlögum næsta árs, eða er ekki hugmyndin að ljúka búnaðarlagasamningnum fyrir áramót?