139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeim heilbrigðisstofnunum sem ég hef gert að umtalsefni hefur ekki verið markaður rammi, þær eru settar í spennitreyju. Það er miklu frekar lýsing á því sem þær eiga við að búa.

Forstöðumaður Sjúkrahússins á Sauðárkróki segir að þessi niðurskurður muni þýða það að sjúkrasviðið verði verst úti og að umsvif þess eigi að minnka um 70% í fjárlögunum. Það þýðir bara að sjúkrasviðið verður lagt niður. Það er í raun og veru rauði þráðurinn í þessum fjárlögum að með þeim er verið að marka þá stefnu að leggja eigi sjúkrasviðið víða úti um land niður. Þau verða ekki sjúkrahús í þeim skilningi sem þau eru í dag á næsta ári.

Þess vegna vil ég spyrja, í fyrsta lagi: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að auka fjárhagslegan ramma þessara sjúkrahúsa frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum? Það er alveg ljóst mál að miðað við þann ramma sem þeim er búinn með 20–30% niðurskurði geta þau auðvitað ekkert hagrætt með þeim hætti öðruvísi en það komi harkalega niður. Langstærsti útgjaldaliður þessara stofnana eru laun. Hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði að það væri markmiðið að segja ekki upp fólki. Það markmið er löngu fyrir bí með þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Vefengir hann tölurnar um fækkun starfa sem forstöðumenn sjúkrahúsanna á Sauðárkróki og Ísafirði hafa nefnt, þ.e. 35–40 manna fækkun á hvorum stað, 70–80 manna fækkun á þessum tveimur sjúkrahúsum? Vill hæstv. ráðherra þar með taka til endurskoðunar þann ramma, þá spennitreyju sem hann er búinn að setja eða áformar að setja þessi sjúkrahús í? Er honum ekki jafn vel ljóst og mér að það er ekki hægt að hagræða um 20–30% með þessum hætti öðruvísi en að það þýði að það verði grundvallarbreyting á starfsemi þessara sjúkrahúsa hér eftir?