139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson beindi athyglinni að ákveðnum þáttum í fjárlagafrumvarpinu sem lýtur að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hann beindi ákveðnum spurningum til mín hvað þessa þætti varðar og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að víkja að þeim.

Í fyrsta lagi velti hv. þingmaður fyrir sér hvort talað hefði verið við forustumenn stofnananna sem hlut eiga að máli varðandi fjárlagagerðina og haft samráð við þá. Það var gert þannig að þeir vissu almennt á hvaða stigi þessi vinna var og hvað gat beðið. Það var rætt við þá fyrir fram um viðbrögð þeirra og tillögur vegna þess sem þeir gætu staðið frammi fyrir. Að vísu óskar sér enginn þess að þurfa að standa frammi fyrir niðurskurði en það var gert með þessum hætti.

Í öðru lagi varðandi niðurskurð á Hafrannsóknastofnun sem er umtalsverður, voru á fjárlögum ársins 2009 1.367 millj. kr. en verða nú 1.267 millj. kr. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns í þeim efnum að það skiptir máli fyrir okkur að Hafrannsóknastofnun geti sinnt verkefnum sínum sem allra best og staðið á bak við þá grunnþekkingu á rannsóknum sem við þurfum að hafa til að stunda þennan grundvallaratvinnuveg okkar og standa á samningum okkar, standa vörð um hagsmuni okkar erlendis. En engu að síður er þetta staðreynd sem bregðast þurfti við og Hafrannsóknastofnun leggur til í tillögum sínum hvernig brugðist verður við því. Komi fram möguleikar til að styðja Hafrannsóknastofnun í gegnum verkefnasjóð eða annað slíkt (Forseti hringir.) verður það skoðað. Þetta var það (Forseti hringir.) sem stofnunin stóð frammi fyrir og við gerum okkur grein fyrir að það getur verið alvarlegt, (Forseti hringir.) en ég tel að menn hafi brugðist við eins og kostur er.