139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Lögð var höfuðáhersla á að standa við þá búvörusamninga sem gerðir voru við bændur á sl. vetri. Samningarnir voru lögákveðnir og bar svo sem að standa við þá, en það þýðir að það kemur ákveðin hækkun inn í þá samninga. Það var meginatriði að standa vörð um þessa samninga. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi Lífeyrissjóð bænda en að sjálfsögðu þýðir niðurskurður á framlögum til hans það að sjóðurinn verði annaðhvort, og sennilega hvoru tveggja, að skerða réttindi sjóðfélaga sinna og/eða að sækja honum tekjustofna annað sem ekki getur verið með öðrum hætti en að það komi t.d. út í verðlagið. Til að halda nokkurn veginn óbreyttri getu sjóðsins og ef það færi út í verðlagið þýddi það kannski upp undir 2% verðhækkun á vörum. Þá hluti er að sjálfsögðu verið að fara yfir en þetta er sú staða sem við stöndum núna frammi fyrir.

Varðandi Framleiðnisjóðinn hefur hann verið lækkaður mjög verulega og nánast niður í algert lágmark. Hann á að vísu inneign þannig að ekki er gert ráð fyrir því að það hafi áhrif á verkefni sjóðsins á næsta ári en ég tel afar mikilvægt að landbúnaðurinn eins og aðrar atvinnugreinar eigi sinn þróunarsjóð og að endurskoða megi tekjustofna Framleiðnisjóðs landbúnaðarins þannig að hann eigi það áfram.

Varðandi síðan samninginn við Bændasamtökin, búnaðarlagasamning svokallaðan, er hann í vinnslu út frá þessum breyttu forsendum og ég á von á því að alveg á næstunni (Forseti hringir.) verði gengið frá samningi hvað það varðar við þær erfiðu aðstæður sem þar eru. (Forseti hringir.)

Varðandi síðan landbúnaðarháskólann tek ég undir mikilvægi og styrk hans og ég taldi, (Forseti hringir.) frú forseti, að hann hefði átt að vera áfram undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu.