139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi E. Rúnarssyni fyrir ágæta ræðu og málefnalega, ég get tekið undir margt í henni. Hins vegar er það svo að núverandi ríkisstjórn hefur haft á stefnu sinni að skattleggja og hækka skatta og alveg sérstaklega á það sem skapar atvinnu, eins og tryggingagjaldið, fjármagnstekjur, hagnað fyrirtækja o.s.frv. og ætlar að ganga lengra í þá veru, þ.e. hún virðist vinna kerfisbundið gegn því að skapa atvinnu en atvinnuleysi er kannski mesti vandinn sem við glímum við. Ég vil spyrja hv. þingmann: Getur hann stutt svona stefnu? Getur hann stutt stefnu sem gengur að öllu leyti út á það að skattleggja atvinnu og reyna að útrýma henni eins og hún sé eitthvert vandamál? Ef hann ekki getur stutt fjárlagafrumvarpið, en það er eiginlega eina merkið um það að hv. þingmaður styðji ríkisstjórnina að hann styðji fjárlagafrumvarpið, ef hv. þingmaður gerir það ekki er hann þá yfirleitt í stuðningshópi ríkisstjórnarinnar?