139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Á fundi nýverið sagði hæstv. fjármálaráðherra að skattar hefðu lækkað á Íslandi vegna þess að skatttekjurnar hefðu lækkað. Samt var markmiðið að hækka skatta fyrir þetta ár. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Styður hann það virkilega að skattstofninn rýrni svona mikið vegna of mikillar skattlagningar að í rauninni beri ríkissjóður skaða af? Við erum að stefna í stöðnun. Það vill svo til að það voru ekki réttir hv. þingmenn sem fluttu frumvarp um að skattleggja séreignarsparnað — þess vegna mátti ekki hlusta á það af því að þeir eru í röngum flokki, flokki sem allir eru á móti sem ekki eru í þeim flokki. Sér hv. þingmaður það ekki sem lausn að skattleggja séreignarsparnaðinn þannig að við komumst yfir þessa gjá sem þjóðin er að brölta yfir og getum þá eftir eitt eða tvö ár farið að skattleggja með óbreyttum sköttum vegna þess að kakan stækkar?