139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ræði í annað sinn frumvarp til fjárlaga við 1. umr. Umræðan hefur verið góð að mínu mati og menn úr öllum flokkum hafa fjallað um ríkisfjármálin af gagnrýni og á málefnalegan hátt. Og það er gott, það er krafa um það í samfélaginu, en þó skynja ég að það er áherslumunur og auðvitað erum við í mismunandi flokkum af því að við höfum mismunandi skoðanir og sýn. Nú síðast var í pontu ágætur þingmaður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem talaði eins og hann væri framsóknarmaður. Það er ágætt að heyra raddir úr öðrum flokkum sem taka undir (Gripið fram í.) sjónarmið okkar framsóknarmanna. Hann hefur kannski villst af leið þegar hann keyrði alla leið norður til Akureyrar og bauð sig fram. Framsóknarhúsið er vel merkt fyrir framan bíóið en Samfylkingarhúsið er niðri á Eyrinni og hann hefur tekið þessa vinstri beygju sem hann hefði kannski ekki átt að taka. En þetta er nú svona meira til gamans sagt.

Ég fór í fyrri ræðu minni yfir þá stefnu og það sem ég vil leggja áherslu á í þessari fjárlagavinnu og nú langar mig til að drepa á fleiri þáttum en ég kom að áðan. Samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi eiga skatttekjur ríkissjóðs árið 2011 að vera um 31 milljarði kr. meiri en í ár. Fjárlögin fyrir 2010 gerðu ráð fyrir skatttekjum upp á 415 milljarða kr. en árið 2011 eiga þær að vera 446 milljarðar kr., það á að sækja hærri skatttekjur með því að auka skattlagningu á fyrirtæki og heimili um 7,5%. Það sem hins vegar er jákvætt er að vaxta- og eignakostnaður mun dragast saman um 15,5 milljarða kr. og þar má kannski segja að tekjurnar aukist um 15,5 milljarða kr. Það undarlega við þetta er að ríkisstjórnin hefur ekki beinlínis beitt sér fyrir því að lækka þennan vaxtakostnað. Hún hefur í raun á allan hátt lagt sig fram um að auka vaxtakostnað og hefur barist fyrir því að ríkissjóður og íslenska ríkið taki öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til á sínum tíma að ríkið tæki. Við börðumst mjög hart gegn því að ríkið tæki öll þau lán. Meira að segja lögðum við í langferð til Noregs þar sem við töluðum um að það ætti að skuldsetja þjóðina langt inn í framtíðina og að sú skuldsetning mundi aðeins gera það að verkum að komandi kynslóðir mundu borga þann tékka í minni heilsugæslu og verri menntun, það yrði einfaldlega minna til skiptanna fyrir þessa tvo mikilvægu málaflokka.

Við lögðum þess vegna til að öllum þessum lánum yrði breytt í lánalínur, þ.e. að íslenska ríkið mundi ekki taka þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til nema að ríkissjóður þyrfti á að halda. Eftir mikla baráttu var það gert að miklu leyti og það skýrir að miklu leyti það að við þurfum að borga minna í vaxtakostnað, eða um 15,5 milljarða kr. Þetta er gríðarlega há fjárhæð, en hugsið ykkur það, kæru kjósendur, að ríkisstjórnin barðist einnig fyrir því að samþykktir yrðu svokallaðir Icesave-samningar en vaxtakostnaður vegna þeirra á hverju einasta ári er um 35 milljarðar kr. og ríkissjóður hefði þurft að taka þann kostnað á sig síðustu tvö ár vegna þess að það átti að byrja að borga vaxtagreiðslur langt umfram skyldu frá 1. janúar árið 2009. Fólk getur reiknað út hversu gríðarlega mikil áhrif það hefði haft á vaxtagjöld ríkissjóðs.

Hér hefur verið rætt um og ég skynja vilja hjá þingmönnum að skera meira niður í stjórnsýslunni. Stjórnsýslan er orðin að einhverju bákni, að einhvers konar yfirvaldi yfir Alþingi þar sem ráðherrar fara sínu fram, keyra um á glæsilegum bílum með bílstjóra, tvo til þrjá aðstoðarmenn og geta ráðið inn í ráðuneytin eins og þeim sýnist. Um daginn var samþykkt hér einróma þingsályktunartillaga sem gekk út á það að styrkja Alþingi. Það var talin nauðsyn, ekki bara af þingmannanefndinni sem lagði það til, heldur líka af þeim sem fóru yfir hrunið í magnaðri og góðri skýrslu, þar sem bent var á að Alþingi er einfaldlega vanbúið til að takast á við stjórnsýsluna og framkvæmdarvaldið.

Þrátt fyrir að Alþingi sé þessarar skoðunar kemur hér fram frumvarp sem segir að Alþingi eigi að skera enn meira niður. Það þýðir að Alþingi verður enn vanmáttugra og enn verr í stakk búið til að fást við þau verkefni sem því er ætlað að fást við samkvæmt lögum þessa lands.

Það þarf sterk bein og kjark til að ráðast í þau verkefni sem þingmannanefndin lagði til en ég óttast að meiri hlutinn muni heykjast á þessu verkefni. Ég óttast það vegna þess að ég hef heyrt þingmenn meiri hlutans kvarta yfir aðbúnaði og kjörum á göngum Alþingis en þegar þeir eru komnir inn í þingsal og þurfa að standa fyrir máli sínu gagnvart þjóðinni er komið annað hljóð í strokkinn.

Alþingi þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Ég vona að þær raddir sem hér hafa heyrst um samstöðu verði að veruleika. Ég óskaði eftir því við formann fjárlaganefndar og bauð fram aðstoð mína við gerð fjárlaga. Ég vissi að það yrði erfið og mikil vinna en ég sagði að ég væri til í að ráðast í verkefnið ef ég fengi að koma að því á fyrri stigum, ef ég fengi að koma að tillögugerðinni. Í raun hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt til að Alþingi semji fjárlagafrumvarpið, að frumvarpið komi ekki að ofan heldur að neðan og að þeir sem eru lýðræðislega kjörnir á Alþingi komi að gerð fjárlagafrumvarpsins. Þeir hafa reyndar lagt fram margar og góðar tillögur í þá veru en ég hef því miður ekki heyrt neina umræðu um þær svo nokkru nemi.

Það sem ég vil segja hér að lokum er að í frumvarpinu er gengið á þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu, það á að skerða fæðingarorlof sem við framsóknarmenn börðumst fyrir, fæðingarorlofið sem hefur verið lofað víða um lönd. Ég tel að með því sé verið að skerða jafnrétti kynjanna, ég tel reyndar að það gangi gegn ákvæðum laga um fæðingarorlof. Það þarf að fara mun betur yfir skerðingar á kjörum námsmanna þessa lands, það þarf að fara betur yfir tillögur um skerðingu á barnabótum. Til þess að niðurstaðan í þessum málaflokkum verði vitræn og sanngjörn (Forseti hringir.) þurfa allir þingmenn að leggjast á eitt.